Categories
Fréttir

Breið samstaða um ítarlega rannsókn á orsökum sjálfsvíga og óhappaeitrana

Deila grein

17/03/2025

Breið samstaða um ítarlega rannsókn á orsökum sjálfsvíga og óhappaeitrana

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi um ítarlega rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Markmið tillögunnar er að safna og samhæfa umfangsmikil gögn sem geti nýst við greiningu áhættuhópa og mótun fyrirbyggjandi aðgerða.

Nauðsynlegt að safna betri gögnum

Í ræðu sinni á Alþingi benti Ingibjörg á mikilvægi þess að samfélagið standi saman gegn þessum alvarlegu málum og hvatti almenning til að vera vakandi fyrir merkjum andlegrar vanlíðanar. „Við verðum að bregðast við af festu og ábyrgð,“ sagði hún. „Það er tímabært að við höfum betri gögn til að skilja undirliggjandi orsakaferli og móta markvissari aðgerðir. Í því skyni felur þessi tillaga í sér stuðning við rannsóknarverkefni sem starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis, hefur þegar hafið.“

Samstarf ríkis og félagasamtaka lykilatriði

Ingibjörg lagði áherslu á mikilvægi samstarfs ríkisins og félagasamtaka á borð við Rauða krossinn, Píeta samtökin, Bergið Headspace, Geðþjónustu Landspítalans og BUGL, sem vinna mikilvægt starf í forvörnum. Hún sagði enn fremur nauðsynlegt að bæta úr þeim annmörkum sem eru á núverandi gagnasöfnun, svo hægt verði að grípa fyrr inn í og bjarga mannslífum.

„Við höfum séð hve mikilvægt það er að grípa inn í tímanlega. Öflugt forvarnastarf skiptir sköpum og aðdáunarverð vinna á sér stað dag hvern hér á landi, bæði hjá stofnunum og hjá félagasamtökum. Margir aðilar hafa lagt sitt af mörkum, þar á meðal heilbrigðisstofnanir, félagasamtök á borð við Rauða krossinn, Píeta samtökin, Bergið Headspace, Geðþjónustu Landspítalans og BUGL. Samstarf ríkis og félagasamtaka er lykilatriði í því að ná til þeirra sem þurfa mest á stuðningi að halda.“

Tillagan gerir ráð fyrir því að starfshópur Lífsbrúar fái stuðning til að afla allra nauðsynlegra gagna, greina þau ítarlega og skila niðurstöðum með tillögum um markvissar forvarnaraðgerðir.

„Vinna starfshópsins sem um er fjallað í tillögu þessari getur skipt sköpum í baráttu okkar gegn sjálfsvígum og dauðsföllum vegna óhappaeitrana. Við eigum að verða okkur úti um og nota öll þau tól sem hægt er að nýta í baráttunni og með tillögu þessari erum við að tryggja okkur mikilvæg tól til framtíðar. Við höfum þörf fyrir að ávallt fari fram rannsókn í kjölfar sjálfsvígs eða dauðsfalls vegna óhappaeitrana.“

Breiður stuðningur þvert á flokka

Að baki tillögunni stendur allur þingflokkur Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins ásamt fjölmörgum öðrum þingmönnum.

Mikilvægt að ræða andlega heilsu opinskátt

Ingibjörg minnti að lokum á að andleg vellíðan eigi aldrei að vera feimnismál og hvatti þá sem líður illa til að nýta sér þau hjálparúrræði sem eru í boði. Hægt er að hringja í hjálparsíma Rauða krossins 1717, fara á netspjallið 1717.is, hringja í 1700 hjá Heilsuveru eða í Píeta símann 552-2218.