Categories
Fréttir

„Breiðu bökin í samfélaginu stígi ölduna með almenningi“

Deila grein

01/03/2023

„Breiðu bökin í samfélaginu stígi ölduna með almenningi“

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi húsnæðismarkaðinn í dag fyrir fyrstu kaupendur og augljósan vanda þeirra í störfum þingsins.

„Ástæðan: Fólki hefur verið gert erfiðara um vik að komast inn á markaðinn. Seðlabankinn tók þá ákvörðun að þyngja greiðslumatið og lækka hámarkslánaprósentuna til að kæla markaðinn og koma böndum á þær miklu hækkanir sem orðið hafa á undanförnum mánuðum og árum,“ sagði Ágúst Bjarni.

Fór hann yfir sveiflurnar sem einkenni fasteignamarkaðinn og sagði hann þær sveiflur vera „fullkomins skorts á yfirsýn yfir þann fjölda sem byggður hefur verið og er í byggingu heilt yfir landið.“

„Nú er búið að taka í handbremsuna og það allharkalega. Það hefur auðvitað þau áhrif að leiga hækkar og fólk hefur minna svigrúm til að leggja fyrir og spara. Fólk kemst ekki inn í þær eignir sem nú eru í byggingu, m.a. allan þann fjölda sem er í uppbyggingu hér á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Ágúst Bjarni.

Sviðsmyndin er að málast upp „þeir ríku græða en aðrir sitja eftir“.

„Fólki fjölgar og eftirspurn eftir húsnæði er áfram til staðar. Tímabundin kæling mun ganga til baka og við sjáum hækkun aftur. Það sem mun vonandi koma böndum á þetta til framtíðar er verkefni hæstv. innviðaráðherra um aukinn fyrirsjáanleika í uppbyggingu húsnæðis og að sveitarfélög komi sér upp sérstökum áætlunum. Staðan er vond. Hún er í raun mjög vond.

Að lokum og enn og aftur vil ég hvetja alla, sérstaklega breiðu bökin í samfélaginu, til að stíga ölduna með almenningi í landinu, nýta þann mikla hagnað sem við sjáum, m.a. hjá tryggingafélögum og bönkum, til að létta undir með fólki. Það sama gildir auðvitað um öll þau fyrirtæki sem svigrúm hafa, að þau ýti ekki hækkunum að fullu út í verðlagið,“ sagði Ágúst Bjarni.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af húsnæðismarkaðnum hér á landi og kannski ekki bara af markaðnum sjálfum heldur af öllum þeim fjölda fólks sem dreymir, eins og alla, um að koma sér upp þaki yfir höfuðið, að koma sér og sínum í húsaskjól, en getur það ekki. Ástæðan: Fólki hefur verið gert erfiðara um vik að komast inn á markaðinn. Seðlabankinn tók þá ákvörðun að þyngja greiðslumatið og lækka hámarkslánaprósentuna til að kæla markaðinn og koma böndum á þær miklu hækkanir sem orðið hafa á undanförnum mánuðum og árum.

Við þekkjum öll þessar miklu sveiflur sem einkenna fasteignamarkaðinn. Þær sveiflur og þann vanda má rekja til fullkomins skorts á yfirsýn yfir þann fjölda sem byggður hefur verið og er í byggingu heilt yfir landið. Þetta hefur m.a. valdið miklum sveiflum á markaði áratugum saman. Nú er búið að taka í handbremsuna og það allharkalega. Það hefur auðvitað þau áhrif að leiga hækkar og fólk hefur minna svigrúm til að leggja fyrir og spara. Fólk kemst ekki inn í þær eignir sem nú eru í byggingu, m.a. allan þann fjölda sem er í uppbyggingu hér á höfuðborgarsvæðinu. Hvar endar þetta og hjá hverjum? Þeir ríku græða en aðrir sitja eftir. Ég held að það þurfi ekki fleiri orð um þá sviðsmynd.

Fólki fjölgar og eftirspurn eftir húsnæði er áfram til staðar. Tímabundin kæling mun ganga til baka og við sjáum hækkun aftur. Það sem mun vonandi koma böndum á þetta til framtíðar er verkefni hæstv. innviðaráðherra um aukinn fyrirsjáanleika í uppbyggingu húsnæðis og að sveitarfélög komi sér upp sérstökum áætlunum. Staðan er vond. Hún er í raun mjög vond.

Að lokum og enn og aftur vil ég hvetja alla, sérstaklega breiðu bökin í samfélaginu, til að stíga ölduna með almenningi í landinu, nýta þann mikla hagnað sem við sjáum, m.a. hjá tryggingafélögum og bönkum, til að létta undir með fólki. Það sama gildir auðvitað um öll þau fyrirtæki sem svigrúm hafa, að þau ýti ekki hækkunum að fullu út í verðlagið.“