Categories
Fréttir

Breytingar hjá Framsókn

Deila grein

06/01/2023

Breytingar hjá Framsókn

Teitur Erlingsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Framsóknar tímabundið eftir að Helgi Haukur Hauksson sem gengt hefur starfinu til síðustu 5 ára sagði því lausu um áramótin. Helgi verður Teit innan handar fyrst um sinn til að koma honum inn í starfið. Teitur er með BA. próf í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst. Teitur hefur á undaförnum árum starfað í verkefnum fyrir Framsókn ásamt því að hafa unnið fyrir Háskólann á Bifröst, Kvikmyndaskóla Íslands o.fl. aðila. Teitur er 27 ára og er í sambúð með Urði Björgu Gísladóttur heyrnafræðingi og búsettur í Kópavogi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar:

„Á þessum tímamótum vil ég þakka Helga Hauki fyrir vel unnin störf í þágu Framsóknar og gott samstarf á undanförnum árum. Hann hefur leitt kosningabaráttu flokksins í gegnum þrennar kosningar þar sem flokkurinn náði góðum árangri og kann ég honum bestu þakkir fyrir það. Þó svo Helgi sé hættur sem framkvæmdastjóri veit ég að Framsókn á áfram eftir að njóta krafta hans í flokksstarfinu. Á sama tíma vil ég bjóða Teit velkominn til starfa og hlakka til að vinna með honum.“

Helgi Haukur Hauksson, fráfarandi framkvæmdastjóri:

„Ég vil þakka öllum þeim sem ég hef unnið með undanfarin ár fyrir samstarfið. Þetta hefur verið skemmtilegur tími og ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að starfa með mikið af frábæru fólki að skemmtilegum verkefnum. Áramót marka oft tímamót eða jafnvel nýtt upphaf og nú langar mig að söðla um, breyta til og fara að gera eitthvað annað. Þessi ákvörðun var einföld en ég tel að núna sé rétti tímapunkturinn til að hleypa öðrum að. Einnig spila fjölskylduaðstæður inn í ákvörðun mína og ætla ég að gefa fjölskyldunni meiri tíma í mínu lífi.“