Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði í umræðum um störf þingsins í gær að nú væru „tvö ár frá því að byltingin hófst á samfélagsmiðlum þegar konur um allan heim greindu frá kynbundnu og kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem fólk hafði löngum leitt hjá sér, hunsað eða þaggað niður. Á Íslandi birtu konur í stjórnmálum áskorun til stjórnmálanna undir yfirskriftinni #ískuggavaldsins og í kjölfarið létu hinir ýmsu hópar kvenna í sér heyra. Þar afhjúpaðist kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi í öllum starfsstéttum, öllum aldurshópum og öllum landshlutum. Það er sannkallað þjóðfélagsmein.“
„Umræðan um kynferðislega áreitni og ofbeldi er opnari og frásögnum er frekar trúað. Nýjasta dæmið er tilkynning frá þjóðkirkjunni um bætta málsmeðferð slíkra mála og stöðu með þolendum.“
„Tilgangur umræðunnar er að halda áfram að breyta samfélagi og fækka gerendum sem virða ekki mörk,“ sagði Líneik Anna.
Ræða Líneikar Önnu Sæavarsdóttur á Alþingi 17. september 2019:
„Virðulegi forseti. Í dag hefst í Hörpu þriggja daga alþjóðleg ráðstefna um #metoo undir yfirskriftinni „Moving Forward“ eða #églíka: Höldum áfram. Yfir 800 manns eru skráð til þátttöku og um 80 fyrirlesarar úr röðum fræðafólks, aktívista, stjórnmálamanna og sérfræðinga. Nú eru tvö ár frá því að byltingin hófst á samfélagsmiðlum þegar konur um allan heim greindu frá kynbundnu og kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem fólk hafði löngum leitt hjá sér, hunsað eða þaggað niður. Á Íslandi birtu konur í stjórnmálum áskorun til stjórnmálanna undir yfirskriftinni #ískuggavaldsins og í kjölfarið létu hinir ýmsu hópar kvenna í sér heyra. Þar afhjúpaðist kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi í öllum starfsstéttum, öllum aldurshópum og öllum landshlutum. Það er sannkallað þjóðfélagsmein.
Samkvæmt nýlegri rannsókn hefur ýmislegt breyst en margt er óunnið. Fyrirtæki hafa sett stefnu um að áreitni og einelti sé ekki liðið og verkferlar hafa verið skýrðir svo markvisst megi taka á málum. Á vinnustöðum hefur verið leitað til fagfólks, kannanir gerðar og haldin námskeið. Stjórnmálaflokkarnir settu á laggirnar samstarfsvettvang og hafa haldið fræðsluerindi og sameiginlega ráðstefnu.
Umræðan um kynferðislega áreitni og ofbeldi er opnari og frásögnum er frekar trúað. Nýjasta dæmið er tilkynning frá þjóðkirkjunni um bætta málsmeðferð slíkra mála og stöðu með þolendum. Á meðan umræðunni er haldið á lofti, og það verðum við að gera, er það ekki einungis hvatning um að koma fram og skila skömminni heldur um að bæta stöðugt vinnubrögð við úrlausn mála og setja og skýra viðmið í samskiptum.
Tilgangur umræðunnar er að halda áfram að breyta samfélagi og fækka gerendum sem virða ekki mörk.“