Categories
Fréttir

Dagbjört tekin við sem formaður SEF

Deila grein

22/05/2025

Dagbjört tekin við sem formaður SEF

Dagbjört Höskuldsdóttir, varaformaður Sambands eldri Framsóknarmanna (SEF), hefur tekið við sem starfandi formaður landssambandsins. Hún tekur við af Birni Snæbjörnssyni, sem ákveðið hefur að láta af formennsku vegna anna í nýju hlutverki sem formaður Landssambands eldri borgara. Þökkum við Birni innilega fyrir mikilvæg og óeigingjörn störf í þágu SEF, en hann mun áfram gegna hlutverki trausts liðsmanns í starfi sambandsins.

„Ég færi Birni alúðarþakkir fyrir samstarfið og eljuna í starfinu fyrir SEF. Ég vona að okkur takist áfram að vera dugleg við að veita forystu flokksins aðhald og leiðsögn í þeim málaflokkum sem snúa að eldra fólki og því sem er samfélaginu til hagsbóta,“ sagði Dagbjört í yfirlýsingu.

Dagbjört Sigríður Höskuldsdóttir er fædd í Stykkishólmi 10. febrúar 1948 og ólst þar upp. Hún hefur starfað í flestum greinum atvinnulífsins, einkum innan Samvinnuhreyfingarinnar við bókhald og stjórnun. Hún sat í stjórn Kaupfélags Stykkishólms, þar af síðast sem formaður og jafnframt starfandi kaupfélagsstjóri. Einnig starfaði hún hjá Kaupfélagi Vestur-Barðstrendinga, síðast sem fulltrúi kaupfélagsstjóra á Patreksfirði.

Dagbjört sótti fjölda aðalfunda Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS), sat í varastjórn þess og nefndum á vegum sambandsins. Þá var hún útibússtjóri Samvinnubankans í Grundarfirði og síðar Landsbankans. Hún átti og rak bókaverslunina Sjávarborg í Stykkishólmi í 19 ár.

Hún hefur tekið virkan þátt í félagsmálum, m.a. sem sveitarstjórnarmaður í Stykkishólmi um árabil og í fjölmörgum nefndum. Hún var ein af fjórum konum sem stofnuðu Júlíönu – hátíð sögu og bóka sem lifir enn góðu lífi. Á síðari árum var hún meðal annars formaður Félags eldri borgara í Stykkishólmi og sat í stjórn Landssambands eldri borgara í nokkur ár.

Dagbjört hefur verið virk í Framsóknarflokknum frá unga aldri. Hún sat í stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF), Nordiska Centerungdomens Förbund (NCF), og hefur átt sæti í miðstjórn flokksins um árabil – nú sem fyrr. Hún var á framboðslista til Alþingis og var varaþingmaður um tíma, þó hún hafi ekki tekið sæti á þingi. Eftir flutning til Reykjavíkur hefur hún verið virk í starfi flokksins þar. Hún skipaði 5. sæti á lista Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu alþingiskosningum og sat jafnframt á framboðslista flokksins í borgarstjórnarkosningunum 2022.

Samband eldri Framsóknarmanna (SEF) var stofnað 15. febrúar 2017. Tilgangur þess er að efla og samræma starf félagsmanna 60 ára og eldri, og vinna að málefnum eldri borgara með virku starfi við stefnumótun og samþykktir á flokksþingum. SEF er einnig ætlað að veita stofnunum Framsóknarflokksins ráðgjöf í öllum málum sem varða eldra fólk og hagsmuni þess.

Í stjórn SEF sitja nú:
Dagbjört Höskuldsdóttir, formaður
Ragnheiður Ingimundardóttir
Jóngeir H. Hlinason
Guðmundur Gils Einarsson
Björn Snæbjörnsson
Þórarinn Þórhallsson
Vigdís Magnea Sveinbjörnsdóttir
Eygló Lind Egilsdóttir