Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði á síðasta ári starfshóp um greiningarvinnu í tengslum við ákveðna þætti fasteignalána til neytenda og neytendalána með það að markmiði að efla neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu og auka fjármálalæsi. Starfshópurinn fór m.a. yfir skjal frá Neytendastofu varðandi upplýsingar sem lánveitendum ber að veita lántökum skv. lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán og er lokaafurð hópsins nýtt og endurbætt upplýsingaskjal.
Starfshópinn skipuðu Axel Hall, lektor við Háskólann í Reykjavík (formaður), Einar B. Árnason, hagfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneyti, Rósa Björk Sveinsdóttir, sérfræðingur í Seðlabanka Íslands og Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu.
Verkefni starfshópsins var margþætt og var lögð áhersla á að skoða hvaða upplýsingum og leiðbeiningum þarf að koma á framfæri til neytenda um mismunandi lánaform, áhrif vaxta og verðbólgu og hvernig megi miðla þeim upplýsingum með skilvirkum hætti. Starfshópurinn kannaði einnig hvernig staðið er að upplýsingamiðlun og leiðbeiningum til lántaka, sem og eftirlitshlutverk Neytendastofu og Seðlabanka Íslands í því samhengi. Greinagerð starfshópsins má finna hér.
Með það að markmiði að efla og samræma upplýsingagjöf til lántaka endurskoðaði og uppfærði starfshópurinn skjal Neytendastofu varðandi upplýsingar til lántaka, samanber framangreint.
Uppfært upplýsingaskjal Neytendastofu
Með aukinni tækniþróun, breyttu neyslumynstri og tíðari lánveitingum, m.a. vegna endurfjármögnunar, hefur lánveitendum fjölgað síðustu ár. Aukin samkeppni í þeim efnum kallar á að lánveitendur vilja geta afgreitt lán hratt og sem mest rafrænt. Því fylgir aukin krafa til neytenda um að kynna sér mismunandi lánsform og gaumgæfa það efni sem lánveitendum er skylt að leggja fram, þar á meðal upplýsingaskjal Neytendastofu. Í vinnu starfshópsins var áhersla lögð á að gera þær upplýsingar eins aðgengilegar og skýrar og mögulegt er.
Til að mæta þeim breiða og fjölbreytta hópi sem tekur fasteignalán var útbúið yfirlit fremst í upplýsingaskjalinu. Skjalið var þannig einfaldað og gert heildstæðara og um leið m.a. lagað að efni sem Evrópusambandið hefur útbúið til að efla fjármálalæsi.
Við yfirferð starfshópsins var lögð áhersla á að skýrður væri munurinn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Leitast var við að búa til stuttar skýringar sem fjármálastofnanir gætu notað til að veita lántökum upplýsingar.
Upplýsingaskjalinu er ætlað að veita neytendum tilteknar upplýsingar um sögulega þróun verðlags og breytilegra vaxta og áhrif þeirra á höfuðstól og greiðslubyrði auk upplýsinga um þróun verðlags og ráðstöfunartekna s.l. 10 ár. Í skjalinu er þannig m.a. útskýrður munur á lánsformum eins og verðtryggðum og óverðtryggðum lánum og munurinn á jöfnum greiðslum og afborgunum.
Aukið samstarf við eftirlit
Neytendastofa hefur eftirlit með upplýsingagjöf samkvæmt lögum um neytendalán og fasteignalán til neytenda en Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur almennt eftirlit með viðskiptaháttum fjármálafyrirtækja. Starfshópurinn leggur til að gengið verði frá samstarfssamningi milli stofnananna með það að markmiði að stuðla að skilvirkari neytendavernd í opinberu eftirliti á fjármálamarkaði.
Neytendastofa mun í kjölfar vinnu starfshópsins taka til nánari skoðunar upplýsingagjöf lánveitenda til neytenda og fylgja því eftir að lánveitendur uppfylli skilyrði laga með fullnægjandi hætti. Búið er að uppfæra vefsíðu Neytendastofu varðandi fjármálalæsi og útskýringar á lánaformum auk þess sem samstarfsamningur við Seðlabankann er í undirbúningi, líkt og starfshópurinn lagði til.
Neytendavernd á dagskrá stjórnmála
Menningar- og viðskiptaráðherra lagði nýverið fyrir Alþingi fyrstu heildstæðu neytendastefnu landsins þar sem lögð er áhersla á að auka neytendavernd á Íslandi.
„Þessi vinna er dæmi um slíka aðgerð og er liður í að setja neytendavernd á dagskrá stjórnmála. Fjármalalæsi er ábótavant hérlendis og það er lykilatriði að neytendur séu ekki í uppgjöf gagnvart lánaumhverfinu og séu hreinlega farnir að sætta sig við að skilja ekki svo mikilvæg málefni. Fasteignalán eru stærsta fjárfesting flestra á lífsleiðinni, því hvet ég fólk eindregið til þess að lesa uppfært upplýsingaskjal Neytendastofu og leita eftir frekari fjármálaráðgjöf ef þarf og finna kraftinn sem fylgir því að öðlast dýpri skilning á fjármálaumhverfinu og um leið eigin valkostum,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.