Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, ræddi atvinnutækifæri og möguleika fólks á að finna störf við hæfi í störfum þingsins.
„Ein af forsendum byggðar er atvinna. Því fjölbreyttara atvinnulíf, því meiri möguleika eiga einstaklingar á að finna störf við hæfi og jafnframt færa sig á milli starfa, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Byggðaþróun og byggðastefna eru orð sem oft hafa verið notuð hér inni í þessum sal í gegnum árin og ætla ég ekki að efast um það eina mínútu að þeir sem þeim hafi beitt hafi viljað efla byggð og uppbyggingu alls Íslands. Í því felst jú byggðastefna,“ sagði Stefán Vagn.
„Þegar horft er í nýja skýrslu Byggðastofnunar um fjölda og dreifingu ríkisstarfa kemur margt athyglisvert í ljós sem mig langar að ræða hér í ræðunni. Ef skoðaður er fjöldi opinberra starfa og hvernig þau dreifast um landið kemur í ljós að í Reykjavíkurborg eru 16.477 opinber störf eða 62,1% opinberra starfa á landinu. Í Hafnarfirði eru störfin 725, 994 í Kópavogi, 469 í Garðabæ og 291 í Mosfellsbæ. Samtals eru á höfuðborgarsvæðinu 19.052 opinber störf. Samanborið við aðra landshluta eru 1.538 á Suðurlandi, 582 á Austurlandi, 860 á Vesturlandi, 1.327 á Reykjanesi, 2.168 á Norðurlandi eystra, 536 á Norðurlandi vestra og 480 á Vestfjörðum.
Ég hef lengi talað fyrir flutningi opinberra starfa út á land og tel að eitt það mikilvægasta í byggðastefnunni sé að auka framboð á störfum um allt land. Til að bregðast við þessari þróun held ég að sé mjög mikilvægt að við horfum í auknum mæli til þess að auglýsa störf með staðsetningu og þá sérstaklega á þeim svæðum þar sem þróunin hefur verið neikvæð, bæði er kemur að íbúaþróun og fjölda opinberra starfa. Það skulum við gera undir formerkjum byggðastefnu og til að efla opinbera þjónustu á landsbyggðinni,“ sagði Stefán Vagn að lokum.