Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins samgönguframkvæmdir og umferðarmenningu og hversu miklar framfarir hafi orðið á þessari öld. En ástæða sé til að staldra við og íhuga hvað hægt sé að gera betur þar sem banaslysin í umferðinni séu þegar orðin sjö á þessu ári, voru átta í heildina allt árið í fyrra.
„Við höfum farið í gríðarmikið átak við að bæta öryggi á vegum landsins, farið í aukna vegagerð, bætt vetrarþjónustu á vegum víða og aukið ofanflóðaeftirlit sem eru allt liðir í bættu öryggi.“
En hvað hefur breyst á þessum árum, á þessari öld?
„Í dag eru uppi allt aðrar aðstæður en voru fyrir aldarfjórðungi. Á þeim tíma var samfélagsgerðin allt önnur. Þá var innan hvers byggðarlags eitt samfélag þar sem íbúar sóttu sína vinnu, skóla, heilsugæslu og félagslíf. Í dag eru landfræðileg mörk byggðarlaganna og samfélaga mun stærri,“ sagði Halla Signý.
Nefndi hún að atvinnusóknarsvæði séu „stöðugt að stækka, fólk sækir vinnu lengra, keyrir börnin í skólann lengri leið og jafnvel í leikskóla um langan veg og þjónustan færist svo sífellt á færri staði.“
„Breytingar í atvinnulífi þjóðarinnar hafa kallað á gríðarlega aukningu á stórflutningum á vegum landsins. Þetta gengur allt vel í heimi þar sem samgöngur eru greiðar allan ársins hring en öflug vetrarþjónusta á vegum landsins er mikið öryggisatriði fyrir okkur öll. Við skulum muna það að eitt banaslys á vegum úti er einu banaslysi of mikið. Stöldrum við og íhugum málið,“ sagði Halla Signý að lokum.
Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Banaslys í umferðinni sem af er þessu ári eru orðin sjö en þau voru átta í heildina allt árið í fyrra. Þessar staðreyndir kalla á að við stöldrum við og íhugum hvað við getum gert betur. Árið 2000 voru banaslys í umferðinni 32. Flest þeirra voru í kringum höfuðborgarsvæðið og á Akureyri og sömu sögu er að segja árið á eftir. Margt hefur sannarlega breyst á þessari öld, bæði hvað varðar framfarir í samgönguframkvæmdum og umferðarmenningu. Við höfum sett mikið átak í að tvöfalda og bæta vegi á suðvestursvæðinu sem hefur skilað sér í að færri banaslys hafa orðið á þessum fjölförnu vegum. Við höfum farið í gríðarmikið átak við að bæta öryggi á vegum landsins, farið í aukna vegagerð, bætt vetrarþjónustu á vegum víða og aukið ofanflóðaeftirlit sem eru allt liðir í bættu öryggi. Banaslysum hefur fækkað ár frá ári þótt hlutfallslega séu fleiri slys á vegum landsins núna síðustu ár. En hvað hefur breyst á þessum árum, á þessari öld? Í dag eru uppi allt aðrar aðstæður en voru fyrir aldarfjórðungi. Á þeim tíma var samfélagsgerðin allt önnur. Þá var innan hvers byggðarlags eitt samfélag þar sem íbúar sóttu sína vinnu, skóla, heilsugæslu og félagslíf. Í dag eru landfræðileg mörk byggðarlaganna og samfélaga mun stærri. Atvinnusóknarsvæði eru stöðugt að stækka, fólk sækir vinnu lengra, keyrir börnin í skólann lengri leið og jafnvel í leikskóla um langan veg og þjónustan færist svo sífellt á færri staði. Breytingar í atvinnulífi þjóðarinnar hafa kallað á gríðarlega aukningu á stórflutningum á vegum landsins. Þetta gengur allt vel í heimi þar sem samgöngur eru greiðar allan ársins hring en öflug vetrarþjónusta á vegum landsins er mikið öryggisatriði fyrir okkur öll. Við skulum muna það að eitt banaslys á vegum úti er einu banaslysi of mikið. Stöldrum við og íhugum málið.“