Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi raforkuöryggi á Vestfjörðum og að það sé ekki tryggt í störfum þingsins.
„Staðreyndin er sú, og ég hef talað um þetta áður, að við á Vestfjörðum erum háð neti varaafls sem hefur verið byggt upp á síðustu árum og eru Vestfirðingar algerlega háðir þessu varaafli til að tryggja gott afhendingaröryggi. Þar undir er líka það sem til þarf til að halda straumi á rafkynntum hitaveitum til húshitunar með tilheyrandi olíunotkun,“ sagði Halla Signý.
Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, en „Vestfirðingar geta ekki fylgt eftir þessum markmiðum meðan þeir þurfa að brenna milljónum lítra af dísilolíu til að halda uppi raforkuöryggi fjórðungsins. Það gengur ekki að skilja Vestfirði eftir í fortíðinni.“
Í skýrslu um raforkumál á Vestfjörðum frá því í vor segir að mikilvægt sé að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess verði að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar svo að hægt sé að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkynntar hitaveitur.
„Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 millj. kr. sem eru til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkrar rannsóknar myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040,“ sagði Halla Signý að lokum.
Ræða Höllu Signýjar á Alþingi:
„Forseti. Fram undan eru dimmustu dagar ársins og í ofanálag eru frosthörkur á landinu. Þá er vont að vita til þess að raforkuöryggi á Vestfjörðum sé ekki tryggt. Það er langt því frá. Staðreyndin er sú, og ég hef talað um þetta áður, að við á Vestfjörðum erum háð neti varaafls sem hefur verið byggt upp á síðustu árum og eru Vestfirðingar algerlega háðir þessu varaafli til að tryggja gott afhendingaröryggi. Þar undir er líka það sem til þarf til að halda straumi á rafkynntum hitaveitum til húshitunar með tilheyrandi olíunotkun. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og teljum við okkur vera vel undirbúin til að takast á hendur metnaðarfullar aðgerðir og fylgja eftir markmiðum til að standast áformin. En Vestfirðingar geta ekki fylgt eftir þessum markmiðum meðan þeir þurfa að brenna milljónum lítra af dísilolíu til að halda uppi raforkuöryggi fjórðungsins. Það gengur ekki að skilja Vestfirði eftir í fortíðinni.
Virðulegi forseti. Í vor kom út skýrsla starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum og í tillögum hópsins kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt væri að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkynntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 millj. kr. sem eru til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkrar rannsóknar myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.
Virðulegi forseti. Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra ljósahátíðar.“