Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður og bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi, var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 1 í gær og ræddi þar við Ágúst Ólafsson, fréttamann á Akureyri, m.a. um uppreksturinn en Þórarinn Ingi er einn þeirra sem reka fé sitt úr Höfðahverfi í eyðibyggðina í Fjörðum.
Í viðtalinu var komið inn á umræðu um landgæði og ofbeit á sumum landsvæðum, í kjölfar skýrslu Ólafs G. Arnalds, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, er ber heitið Á röngunni – alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt.
Ólafur G. Arnalds segir að skoðun gagna um umhverfisáhrif sauðfjárbeitar leiði í ljós að margt hafi farið úrskeiðis um framkvæmd gæðastýringar í sauðfjárrækt og þá einkum landnýtingarþátt verkefnisins. Gæðastýringin er liður í samningum sauðfjárbænda um stuðning við atvinnugreinina.
Fram kom hjá Þórarin Inga að landgæði væru ljómandi góð heilt yfir í Fjörðum. „Við höfum verið í verkefni í yfir tuttugu ár á heiðinni sem slíkri, á Leirdalsheiðinni, sem hefur skilað miklum árangri, en vissulega er þetta ekki þungamiðja í okkar beitarsvæði. Þarna erum við að græða upp landið, sem er einmitt það sem bændur gera alls staðar hringinn í kringum landið. Bændum er umhugað um það land sem er verið að nýta og gera sér grein fyrir því að ef gengið er of langt í beit eru menn að skerða rétt framtíðarinnar til að nýta landið.“
Þórarinn Ingi segir að sauðfé sé ekki sleppt eitthvað út í buskan og að það sé ekki ofbeit vegna núverandi búskaparhátta. „Landið er víða uppblásið af öðrum völdum en vegna sauðkindarinnar. Það eru gríðarlegir hópar af gæsum, það ganga hreindýr laus o.s.frv. Við búum í landi þar sem veður eru válynd, svo ég tali ekki um allar þessar náttúruhamfarir, það er ekki bara sauðkindin sem á sök á því hvernig er fyrir komið. Vissulega var það hér áður fyrr að menn voru ekki að heyja það magn sem gert er í dag, búfjáreign var einnig miklu meiri, fé er núna um 450.000, en það voru milljón kindur hér upp úr 1980. Síðan er beitartími orðinn allt annar og mér gremst yfirleitt þessi umræða hjá þessum mönnum sem ég veit að eiga að vita betur. Staðan er ekki svona og það er á sumum stöðum alltaf farið á þetta svo kallaða „gosbelti“ og þar er verið að ráðast á bændur sem eiga það einfaldlega alls ekki skilið, vegna þess að þetta eru þeir bændur sem hafa staðið sig hvað allra best í að græða upp landið.“
„Það er ekki vænlegt til árangurs að sparka í þann sem hefur hingað til hugsað um landið,“ segir Þórarinn Ingi.
„Við sjáum árangur víða um land þar sem bændur hafa verið að græða upp landið og þeir sem vilja sjá það – sjá það. Það er búið að vinna þrekvirki heilt yfir á vegum bænda hringinn í kringum landið þar sem að á hefur þurft að halda í gegnum árin og fullyrði ég að það er þrekvirki, menn hafa lagt á sig ómældan tíma og vinnu í gegnum árin til þess að endurheimta það sem hefur farið í burtu vegna þeirra áhrifa sem nefnd voru hér að framan. Ekki eingöngu vegna sauðkindarinnar og þetta snýst ekki um það að græða upp fyrir beit – það er alls ekki þannig – menn eru að græða upp landið til þess að reyna að loka því,“ segir Þórarinn Ingi.
Áætlað er að á hverju ári séu 18.000-19.000 hektarar undir í uppgræðsluverkefnum og eins er búið að friða mikið af landi í gegnum tíðina. „Þannig að menn skulu spara stóru orðin þegar er verið að ráðast á bændur og vinna málin frekar í sátt og samlyndi enda skilar það okkur árangri. Það skilar engum árangri að vera með upphrópanir og læti og dæma síðan heila stétt, heilt yfir um landið. Vissulega er það alltaf þannig að eitthvað má betur fara og við tökum að sjálfsögðu alltaf við ábendingum og viljum gera betur,“ segir Þórarinn Ingi, „og það má ekki gleyma því heldur að sum ár gengur ofboðslega vel, það er þá vegna þess að tíðarfarið hefur verið mjög hagstætt. Svo koma þurrkar, líkt og hefur verið núna og þá gengur þetta hægar og veðurfarið getur jafnvel eyðilagt margra ára starf.“
- Morgunvaktin — Sauðfjárbændur um allt land eru þessa dagana að reka lambfé sitt á fjall til sumarbeitar. Þá þurfa sumir að fara tugi kílómetra á meðan öðrum dugir að reka kindur og lömb rétt út úr fjárhúsgirðingunni. Það er mikil útgerð sem fylgir upprekstrinum og oft þarf að kalla til auka mannskap, enda taka svona ferðir gjarnan einhverja daga. Þórarinn Pétursson, bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi, er einn þeirra sem reka fé sitt úr Höfðahverfi í eyðibyggðina í Fjörðum – viðtalið hefst á 1:24:25 mínútu