Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður: Willum Þór Þórsson

Deila grein

25/06/2020

Eldhúsdagsumræður: Willum Þór Þórsson

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í vikunni að þingveturinn hafi byrjað „með hefðbundnu sniði og framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir þetta ár. Þar var verkefnið að mæta hægari efnahagsumsvifum, stuðla áfram að framförum og bættum lífsgæðum. Við höfum staðið skynsamlega að ríkisfjármálum undanfarin ár og skuldastaðan er góð í alþjóðlegum samanburði. Styrk staða ríkisfjármála gaf okkur svo sannarlega tækifæri til þess að veita þá efnahagslegu viðspyrnu sem þá blasti við að væri nauðsynleg. Engan óraði þó fyrir því hvað við áttum í vændum“.

„Í gildandi fjárlögum þessa árs eru álögur lækkaðar á heimili og fyrirtæki með lækkun tekjuskatts á einstaklinga og lækkun tryggingargjalds. Sótt er fram á fjölmörgum sviðum með auknum framlögum til heilbrigðismála. Stuðningur er aukinn við húsnæðismál tekjulægri hópa, fyrstu kaupendur og landsbyggð, aukin framlög til menntamála og fjármögnun nýs menntasjóðs er tryggð. Fjármagn er aukið til nýsköpunar og rannsókna og mikill kraftur settur í að efla opinbera fjárfestingu og sérstakt átak í samgönguverkefnum.

En þingið hafði vart lokið við að samþykkja fjárlög fyrir 2020 þegar kófið skall á með tilheyrandi samfélagslegum usla og efnahagslegum skaða, hér á landi og á heimsvísu, miklum og snöggum samdrætti og gríðarlegri óvissu. Ég ætla ekki að rekja áhrif og afleiðingar þess hér eða setja á það einhverja mælistiku en faraldurinn hefur snert okkur öll, fjölskyldur, vini og ættingja, störf okkar og okkar daglega líf,“ sagði Willum Þór.

Sagði Willum Þór að núverandi aðstæður kalli á samstöðu, samtakamátt og að við þurfum á því að halda að sýna hvað í okkur býr. Í meðbyr virðist allt ganga vel, allir að gera góða hluti en nú reynir á og að við sýnum þjóðareinkenni.

„Við slíkar aðstæður, sem einkennast af mikilli óvissu, gefst ekki mikill tími til að ígrunda ákvarðanir, hvað þá að hika, heldur þarf að bregðast hratt við og mæta þeim aðstæðum sem slíkum sem hafa skapast og gera það af öryggi og festu,“ sagði Willum Þór.

„Ráðstafanir sem samþykktar voru í fjárlögum fyrir þetta ár standa óhaggaðar. Þar að auki höfum við nú gripið til fjölmargra ráðstafana til þess að verja efnahag heimila og fyrirtækja, styrkja rekstur og veita skjól. Markmiðið er að ríkissjóður dempi höggið af Covid-niðursveiflunni og dragi úr efnahagslegum afleiðingum þess eins og kostur. Vonandi ber okkur gæfa til að mæta þeim efnahagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir af sömu auðmýkt og samstöðu og við höfum sýnt á sviði sóttvarna. Það er ekki bara mín ósk heldur er það ávallt vænlegra til árangurs.

Mikilvægast er þó að aðgerðirnar sem farið er í skili árangri. Samvinna er ekki bara æskileg heldur oftast lykill að því að ná tilsettum markmiðum. Markmiðið er að fjármagnið skili sér til þeirra og fyrir þá sem því er ætlað. Með upplýsingagjöf, gagnsæi og samtímaeftirliti eigum við að geta tryggt það.“

„Um leið og það er ásetningur okkar að nýta sterka stöðu ríkissjóðs til þess að vinna okkur í gegnum þessar hremmingar er mikilvægt að horfa til lengri tíma og gæta að sjálfbærni ríkisfjármála. Tryggjum að við séum ávallt í þeirri stöðu að geta brugðist við áföllum, að við getum fjármagnað tímabundinn halla þegar það á við án þess að velta skuldum á komandi kynslóðir — því sannarlega erum við öll ríkissjóður,“ sagði Willum Þór að lokum.

Ræða Willum Þórs Þórssonar í heild sinni:

 

<iframe scrolling=’no’ frameborder=’0′ type=’text/html’ style=’border:0;overflow:hidden; width:100%;height:250px’ src=’//vod.althingi.is/player/?type=vod&width=512&height=288&icons=yes&file=20200623T192423&start=6492&duration=408&autoplay=false’ allowTransparency allowfullscreen seamless allow=’autoplay; fullscreen’></iframe>

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Þingveturinn byrjaði með hefðbundnu sniði og framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir þetta ár. Þar var verkefnið að mæta hægari efnahagsumsvifum, stuðla áfram að framförum og bættum lífsgæðum. Við höfum staðið skynsamlega að ríkisfjármálum undanfarin ár og skuldastaðan er góð í alþjóðlegum samanburði. Styrk staða ríkisfjármála gaf okkur svo sannarlega tækifæri til þess að veita þá efnahagslegu viðspyrnu sem þá blasti við að væri nauðsynleg. Engan óraði þó fyrir því hvað við áttum í vændum.

Í gildandi fjárlögum þessa árs eru álögur lækkaðar á heimili og fyrirtæki með lækkun tekjuskatts á einstaklinga og lækkun tryggingagjalds. Sótt er fram á fjölmörgum sviðum með auknum framlögum til heilbrigðismála. Stuðningur er aukinn við húsnæðismál tekjulægri hópa, fyrstu kaupendur og landsbyggð, aukin framlög til menntamála og fjármögnun nýs menntasjóðs er tryggð. Fjármagn er aukið til nýsköpunar og rannsókna og mikill kraftur settur í að efla opinbera fjárfestingu og sérstakt átak í samgönguverkefnum.

En þingið hafði vart lokið við að samþykkja fjárlög fyrir 2020 þegar kófið skall á með tilheyrandi samfélagslegum usla og efnahagslegum skaða, hér á landi og á heimsvísu, miklum og snöggum samdrætti og gríðarlegri óvissu. Ég ætla ekki að rekja áhrif og afleiðingar þess hér eða setja á það einhverja mælistiku en faraldurinn hefur snert okkur öll, fjölskyldur, vini og ættingja, störf okkar og okkar daglega líf.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Slíkar kringumstæður kalla fram samstöðu, vekja með okkur samtakamátt og það er við slíkar aðstæður sem við þurfum á því að halda að sýna hvað í okkur býr. Það kallar gjarnan fram úr hverju við erum gerð. Í meðbyr virðist allt geta gengið upp og allir virðast vera að gera góða hluti en það er við aðstæður eins og þessar sem raunverulega reynir á og laðar gjarnan fram það sem við getum kallað þjóðareinkenni.

Við slíkar aðstæður, sem einkennast af mikilli óvissu, gefst ekki mikill tími til að ígrunda ákvarðanir, hvað þá að hika, heldur þarf að bregðast hratt við og mæta þeim aðstæðum sem slíkum sem hafa skapast og gera það af öryggi og festu.

Á sóttvarnasviðinu er óumdeilt að tekist hefur vel til. Heilbrigðiskerfið hefur sannarlega staðist álagsprófið og samstaðan í samfélaginu öllu þegar kemur að sóttvarnaábyrgð hvers og eins speglast í þeirri vegferð sem hið ágæta slagorð nær svo vel utan um að við erum öll almannavarnir. Verðskuldað hlaut þríeykið viðurkenningu forseta fyrir afburðastörf og auðmýkt þeirra fannst mér einkennandi fyrir þá samstöðu sem nauðsynlegt var að næðist í þessum hluta baráttunnar. Heilbrigðiskerfið með þríeykið í fararbroddi verðskuldar allar góðar þakkir.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Þær ráðstafanir sem samþykktar voru í fjárlögum fyrir þetta ár standa óhaggaðar. Þar að auki höfum við nú gripið til fjölmargra ráðstafana til þess að verja efnahag heimila og fyrirtækja, styrkja rekstur og veita skjól. Markmiðið er að ríkissjóður dempi höggið af Covid-niðursveiflunni og dragi úr efnahagslegum afleiðingum þess eins og kostur. Vonandi ber okkur gæfa til að mæta þeim efnahagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir af sömu auðmýkt og samstöðu og við höfum sýnt á sviði sóttvarna. Það er ekki bara mín ósk heldur er það ávallt vænlegra til árangurs.

Mikilvægast er þó að aðgerðirnar sem farið er í skili árangri. Samvinna er ekki bara æskileg heldur oftast lykill að því að ná tilsettum markmiðum. Markmiðið er að fjármagnið skili sér til þeirra og fyrir þá sem því er ætlað. Með upplýsingagjöf, gagnsæi og samtímaeftirliti eigum við að geta tryggt það.

Um leið og það er ásetningur okkar að nýta sterka stöðu ríkissjóðs til þess að vinna okkur í gegnum þessar hremmingar er mikilvægt að horfa til lengri tíma og gæta að sjálfbærni ríkisfjármála. Tryggjum að við séum ávallt í þeirri stöðu að geta brugðist við áföllum, að við getum fjármagnað tímabundinn halla þegar það á við án þess að velta skuldum á komandi kynslóðir — því sannarlega erum við öll ríkissjóður.