Categories
Fréttir

„Er það stefna ríkisstjórnarinnar að færa öll verkefni til ríkisins?“

Deila grein

14/10/2025

„Er það stefna ríkisstjórnarinnar að færa öll verkefni til ríkisins?“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, beindi í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi fyrirspurn til forsætisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum og spurði hvort markmiðið væri að draga verkefni frá hinu blandaða kerfi til ríkisins.

Sigurður Ingi rifjaði upp að Framsókn styddi að nýta alla krafta heilbrigðiskerfisins, bæði opinbera og einkarekna, og vísaði til verka Willums Þórs Þórssonar, fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Hann sagði að Samfylkingin hefði fyrir kosningar tekið upp meginlínur þeirrar nálgunar í sinni stefnu.

Að hans mati hefur framkvæmd núverandi ríkisstjórnar hins vegar farið í gagnstæða átt. Hann nefndi sérstaklega:

„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækka lyfjakostnað venjulegs fólks um 450 milljónir undir því yfirskini að vera að fjölga þrepum. Við munum öll eftir Janusi, NEET-hópnum sem ríkisstjórnin og heilbrigðisráðherra lagði niður án þess að það væru önnur úrræði til staðar fyrir þann viðkvæma hóp. Við höfum séð frumvarp í samráðsgátt frá heilbrigðisráðherra sem hefur ekki vakið hrifningu Læknafélags Reykjavíkur, Félags sjúkraþjálfara, Tannlæknafélagsins, sálfræðinga, ljósmæðra og talmeinafræðinga, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Og við höfum séð í fjárlögum að Ljósið, sem tekur á móti 1.600 manns og hefur vaxið og verið gríðarlega mikilvægur þáttur í endurhæfingu þeirra sem hafa farið í gegnum krabbameinsmeðferð, byggt upp m.a. starfsemi úti á landi, verður nú fyrir niðurskurði upp á 40%, 200 milljónir, í fjárlögum þessarar ríkisstjórnar.“

„Er það stefna ríkisstjórnarinnar að færa öll verkefni frá hinum almenna markaði þar sem eru einkareknar stöðvar eða félagsstöðvar þar sem starfa sjálfboðaliðar til ríkisins og skera niður hina? Er það stefna ríkisstjórnarinnar?“ spurði Sigurður Ingi.

Hann sagði að umrædd verkefni væru „ekki beint hjá ríkinu heldur í hinu blandaða kerfi“ og að fyrirhugaðar breytingar gætu grafið undan þjónustu sem rekin væri af sjálfseignarstofnunum, félagasamtökum og einkaaðilum í nánu samstarfi við hið opinbera.