Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins flugsamgöngur sem sé eini raunhæfi samgöngumátinn fyrir almenning frá norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum við höfuðborgarsvæðið. Margir íbúanna þurfa að nýta sér flugið til læknisferða og annarra brýnna erinda.
„En er það raunhæfur valkostur þegar verðið á flugmiðanum getur sveiflast um allt að 30-70% eftir því hvenær flugið er pantað, á hvaða dögum það er eða með hvaða skilmálum það er sett?
Ég þekki til þess að flug sem var pantað með fimm daga fyrirvara fyrir helgi í maí var með sama fyrirvara 30% dýrara en helgin á undan og þó með sömu skilmálum. Aðrar almenningssamgöngur eru ekki í boði á þessu svæði auk þess sem verð í innanlandsflug hefur hækkað eins og fyrr segir,“ sagði Halla Signý.
Tilkoma Loftbrúarinnar, sem sett var á fót árið 2020, er um að kenna vilja margir meina. „Það væri í hæsta máta einkennilegt að tengja þarna á milli. Ef svo væri mætti miklu frekar velta fyrir sér siðferði flugfélaganna. Loftbrúin er ein stærsta byggðaaðgerð sem gripið hefur verið til á undanförnum árum sem til þess er fallin að jafna aðstöðumun þeirra sem nýta sér innanlandsflug sem almenningssamgöngur.“
„Þegar rýnt er í rannsóknir og kannanir sem hafa verið gerðar frá því að Loftbrúin leit dagsins ljós má sjá að mikill meiri hluti þeirra sem hafa nýtt sér úrræðið segjast ánægðir með það en þó er talin ástæða til að endurskoða úrræðið enn frekar. Margir nýta Loftbrúna til að sækja sér heilbrigðisþjónustu eða í tengslum við íþróttaiðkanir og vegna skólasóknar. Það er viðurkennd staðreynd að við fitnum ef við borðum mikið súkkulaði. Tilkoma Loftbrúar og hækkandi flugfargjöld innan lands hafa ekki sömu fylgni,“ sagði Halla Signý að lokum.
Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Undir þessum dagskrárlið talaði ég síðast um almenningssamgöngur og enn er ég hingað mætt, nú til að tala um almenningssamgöngur í lofti. Einu raunhæfu samgöngurnar fyrir almenning frá norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum við höfuðborgarsvæðið er flugið, eini samgöngumátinn sem margir þurfa að nýta sér til læknisferða og annarra brýnna erinda. En er það raunhæfur valkostur þegar verðið á flugmiðanum getur sveiflast um allt að 30–70% eftir því hvenær flugið er pantað, á hvaða dögum það er eða með hvaða skilmálum það er sett? Ég þekki til þess að flug sem var pantað með fimm daga fyrirvara fyrir helgi í maí var með sama fyrirvara 30% dýrara en helgin á undan og þó með sömu skilmálum. Aðrar almenningssamgöngur eru ekki í boði á þessu svæði auk þess sem verð í innanlandsflug hefur hækkað eins og fyrr segir. Margir vilja kenna þar um tilkomu Loftbrúarinnar sem sett var á fót árið 2020. Það væri í hæsta máta einkennilegt að tengja þarna á milli. Ef svo væri mætti miklu frekar velta fyrir sér siðferði flugfélaganna. Loftbrúin er ein stærsta byggðaaðgerð sem gripið hefur verið til á undanförnum árum sem til þess er fallin að jafna aðstöðumun þeirra sem nýta sér innanlandsflug sem almenningssamgöngur. Þegar rýnt er í rannsóknir og kannanir sem hafa verið gerðar frá því að Loftbrúin leit dagsins ljós má sjá að mikill meiri hluti þeirra sem hafa nýtt sér úrræðið segjast ánægðir með það en þó er talin ástæða til að endurskoða úrræðið enn frekar. Margir nýta Loftbrúna til að sækja sér heilbrigðisþjónustu eða í tengslum við íþróttaiðkanir og vegna skólasóknar. Það er viðurkennd staðreynd að við fitnum ef við borðum mikið súkkulaði. Tilkoma Loftbrúar og hækkandi flugfargjöld innan lands hafa ekki sömu fylgni.“