Categories
Fréttir

Fjármögnun nýrra hjúkrunarrýma í uppnámi

Deila grein

03/04/2025

Fjármögnun nýrra hjúkrunarrýma í uppnámi

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, efast um að fjárveitingar ríkisstjórnarinnar dugi til að fjölga hjúkrunarrýmum eins og stefnt er að. Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi spurði Ingibjörg fjármála- og efnahagsráðherra hvort fjárveitingar í fjármálaáætlun nægi raunverulega til að fjölga hjúkrunarrýmum um 100 á ári, eins og áður hefur verið rætt. Hún bendir á að samkvæmt núverandi áætlun verði aðeins hægt að byggja árlega 70-90 rými miðað við fyrirliggjandi fjármagn. Þá kallaði Ingibjörg eftir svörum um hvort tryggð séu nægileg framlög til reksturs þessara nýju rýma.

Ingibjörg bendir á að núverandi áætlun geri ráð fyrir 2,7 milljarða króna fjárfestingu árið 2026, sem nægi ekki til 100 hjúkrunarrýma miðað við raunverulegan kostnað. Hún vekur einnig athygli á því að uppbygging ein og sér nægi ekki; tryggja þurfi einnig rekstur og þjónustu.

„Er fjármálaáætlunin raunhæf og gerir hún í reynd ráð fyrir 100 nýjum hjúkrunarrýmum á ári eða fleirum? Og ef ekki, hvert er þá raunverulegt markmið ríkisstjórnarinnar varðandi fjölgun hjúkrunarrýma og hvernig er fjármögnun þjónustunnar tryggð?“

Fjármála- og efnahagsráðherra segir að fjárfestingarframlög hafi safnast upp vegna framkvæmda sem ekki hafi náðst að ljúka síðustu ár. Hann telur að með þessum uppsöfnuðu framlögum ásamt nýjum fjárveitingum í fjármálaáætlun sé raunhæft að ná markmiðum um fjölgun hjúkrunarrýma. Hann viðurkennir hins vegar að rekstur nýrra rýma sé ekki að fullu útfærður í áætluninni.

Ingibjörg spurði einnig hvort ríkisstjórnin hygðist halda áfram svokallaðri „leiguleið“, þar sem ríkið gerir langtímasamninga við fasteignafélög um byggingu og leigu hjúkrunarheimila. Hún gagnrýndi tregðu við að koma útboðum af stað. Fjármála- og efnahagsráðherra sagði leiguleiðina áfram vera meðal valkosta en að frekari skýringar þyrfti að sækja sérstaklega til Framkvæmdasýslunnar.

Ljóst er að óvissa ríkir um raunhæfa fjármögnun og framkvæmd fjölgunar hjúkrunarrýma. Ingibjörg krefst skýrari svara og aðgerða ríkisstjórnarinnar til að tryggja markmið um fjölgun rýma verði náð.