Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, gerði alvarlega athugasemd við forsætisráðherra á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnum og krafðist skýrra svara um stöðu Reykjavíkurflugvallar og uppbyggingu nýrrar flugstöðvar í Reykjavík.
Sigurður Ingi minnti á að í umræðu um nýja samgönguáætlun, sem forsætisráðherra hefur lýst sem faglega unninni, að þar væri í raun verið að byggja á þeirri stefnu sem þegar hefði verið mótuð árið 2023, meðal annars um að festa Reykjavíkurflugvöll í sessi og tryggja uppbyggingu flugstöðvar í Reykjavík.
Í áætluninni er kveðið á um að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar skuli tryggt „á meðan annar jafn góður eða betri kostur er ekki fyrir hendi“ og að mæta þurfi þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Þá er gert ráð fyrir því að ný flugstöð rísi í samstarfi ríkis og annarra aðila með svokallaðri samvinnuleið og að þegar á næsta ári verði unnin þarfagreining með flugrekendum og flugafgreiðsluaðilum, með áætluðum framkvæmdatíma upp á 24 mánuði.
Framsókn telur þetta skýrt merki um að baráttan fyrir áframhaldandi starfsemi Reykjavíkurflugvallar hafi skilað árangri.
„Við í Framsókn erum auðvitað ánægð með að verið sé að festa Reykjavíkurflugvöll í sessi,“ sagði Sigurður Ingi og lagði áherslu á að það skipti sköpum fyrir öruggar og greiðar samgöngur og jákvæða byggðaþróun um allt land.
Í ræðu sinni beindi hann jafnframt spjótum sínum að meirihlutanum í Reykjavíkurborg, þar sem Samfylkingin fer með forystu, og spurði hvort borgarmeirihlutinn væri meðal þeirra aðila sem kæmu að samvinnuverkefninu um uppbyggingu flugstöðvar. Sigurður Ingi minnti á margra ára yfirlýsta stefnu Samfylkingarinnar um að fjarlægja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni og setti spurningarmerki við hvort sú stefna væri nú komin í uppnám í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar.
Um leið gagnrýndi Sigurður Ingi að forsætisráðherra hefði ekki svarað spurningum Guðrúnar Hafsteinsdóttur um virkni og mikilvægi siðareglna. Hann sagði að það gæti verið mannlegt að gleyma að svara, en ítrekaði að forsætisráðherra skuldaði Alþingi og almenningi skýr svör, bæði um siðareglur og um það hvort ríkisstjórnin og borgaryfirvöld stæðu raunverulega að baki þeirri stefnu að tryggja Reykjavíkurflugvelli framtíð í Reykjavík.
