Categories
Fréttir

Framsókn kallar eftir skynsamlegri hagræðingu í ríkisrekstri

Deila grein

05/03/2025

Framsókn kallar eftir skynsamlegri hagræðingu í ríkisrekstri

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýnir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í hagræðingu ríkisrekstrar og kallar eftir skýrari stefnumörkun og raunhæfum útreikningum. Í ræðu sinni í störfum þingsins á Alþingi sagðist hún fagna því að ríkisstjórnin legði fram tillögur um 70 milljarða króna sparnað á fimm árum, en efast um að þær séu raunhæfar og nægilega vel undirbyggðar.

Óljós útreikningar og vanmat á tímafresti

Ingibjörg benti á að í tillögum ríkisstjórnarinnar væri ekki tekið tillit til kostnaðar við innleiðingu þeirra. Hún nefndi að sameining stofnana og endurskipulagning verkefna gæti tekið eitt til tvö ár, en mótun, samningagerð og samþykkt frumvarpa gæti tekið enn lengri tíma. Hún spurði hvort tímavirði sparnaðarins væri rétt reiknað og hvort raunverulegur sparnaður væri jafnvel mun lægri en gefið væri upp.

Skortur á heildstæðri stefnumörkun

Þingmaðurinn gagnrýndi einnig að ríkisstjórnin hefði ekki mótað skýrari áherslur um hlutverk ríkisins áður en fjöldi tillagna væri settur fram. Hún hvatti til þess að ríkið skilgreindi betur hvað það ætti að sinna og hvað ekki, frekar en að leggja einfaldlega áherslu á niðurskurð. Að hennar mati ætti að líta á ríkisfjármálin í heild, þar með talið tekjuhliðina og hlut stjórnenda innan ríkisins.

Hagsmunir landsmanna í forgang

Ingibjörg lagði áherslu á að Framsókn vildi raunhæfa hagræðingu sem virkar, ekki óskhyggju. Hún hvatti til þess að ríkisstjórnin setti fram raunhæfar tillögur og aðgerðaáætlun til lengri og skemmri tíma og gætti þess að tryggja hagsmuni allra landsmanna, þar með talið íbúa landsbyggðarinnar.

Að lokum spurði hún hvort ríkisstjórnin hygðist setja þessar tillögur inn í næstu fjármálaáætlun, sem á að leggja fram fyrir 1. apríl, og gefa þinginu þannig færi á að fjalla um þær í þaula. Framsókn vill, að hennar sögn, horfa á stóru myndina og tryggja heildarsýn í ríkisfjármálum og hagstjórn.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Við í Framsókn styðjum hagræðingu í ríkisrekstri. Tillögur ríkisstjórnarinnar frá 4. mars eru vissulega ánægjulegt skref en við getum eflaust velt því fyrir okkur hvort það sé hægt að kalla þetta tillögur frekar, kannski meira hugarflug. Það er auðvelt að lofa 70 milljörðum kr. sparnaði á fimm árum án skýrra útreikninga. Í tillögunum er lítið sem ekkert fjallað um kostnaðinn við innleiðingu á tillögunum. Það tekur eitt, tvö ár að sameina stofnanir og endurskipuleggja verkefni. Það tekur eitt til þrjú ár að móta, semja og svo samþykkja frumvörp. Það þarf oft áralangt samráð. Er því tímavirði meints sparnaðar rétt reiknað? Er kannski um að ræða 30 milljarða eða jafnvel lægri tölu? Væri ekki rétt eða a.m.k. skynsamlegra að ríkisstjórnin mótaði fyrst skýrari áherslur um hvert hlutverk ríkisins sé að hennar mati áður en tugir tillagna eru settar fram? Við í Framsókn köllum eftir skynsamlegri og raunhæfri hagræðingu. Nær ríkisstjórnin að setja þessar tillögur inn í næstu fjármálaáætlun, sem á að leggja fram fyrir 1. apríl, og gefa þinginu þá tækifæri til að fjalla um þær? Við í Framsókn viljum hagræðingu sem virkar, ekki óskhyggju. Við þurfum að horfa á stóru myndina, skilgreina hvað ríkið á að gera og hvað ekki, horfa ekki eingöngu á niðurskurð heldur líka á tekjuhliðina, horfa heildstætt á ríkisfjármál og hagstjórnina og ekki gleyma hlut stjórnenda innan ríkisins, því að ekkert gerist án þekkingar og frumkvæðis, og setja fram raunhæfar tillögur og aðgerðaáætlun til lengri og skemmri tíma. En umfram allt tryggjum við hagsmuni allra landsmanna, þar með talið landsbyggðarinnar. Við eigum að horfa á stóru myndina, horfa á heildarmyndina og hagsmuni heildarinnar allrar.“