Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, skoraði á ríkisstjórnina að setja af stað þjóðarátak í fæðuöryggi. Hún lagði áherslu á að efla innlenda matvælaframleiðslu og tryggja aðföng líkt og raforku, eldsneyti og áburð, sem eru nauðsynleg fyrir framleiðsluna.
Óvissa í heimsmálum kallar á aðgerðir
Halla Hrund benti á að óvissan í heimsmálum væri mikil og hefði bein áhrif á markaði. Hún nefndi nýlegar tollaákvarðanir Bandaríkjanna gagnvart Kanada og Mexíkó sem dæmi um versnandi viðskiptaskilyrði, auk viðskiptatakmarkana gagnvart Kína. Þetta bætist við þá óstöðugleika sem skapast hafa í Evrópu vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Hún lagði áherslu á að alþjóðasamvinna væri mikilvæg, en Ísland þyrfti einnig að byggja upp sitt eigið áfallaþol.
Landbúnaður sem hluti af öryggisinnviðum
Þingmaðurinn gagnrýndi skort á skilningi stjórnvalda á mikilvægi landbúnaðar sem innviðum. Hún sagði að hann ætti að vera hluti af varnarviðbrögðum þjóðarinnar, rétt eins og aðrir innviðir, og nefndi Suðurnesin sem dæmi um svæði þar sem slíkt væri í forgrunni. Hún benti á að þessi skortur á skilningi kæmi fram í tollamálum gagnvart mjólkurbændum og hækkandi raforkuverði sem gæti leitt til lokunar garðyrkjubænda, eins og kom fram í Kastljósi í gærkvöldi.
Þverpólitísk samstaða nauðsynleg
„Þetta er allt eitthvað sem hægt er að breyta með lagasetningu og mun ekki standa á okkur í Framsókn að styðja við. Ég held þess vegna að við eigum þvert á flokka að styðja við þjóðarátak í fæðuöryggi. Munum að það er líka eitthvað sem mun efla lýðheilsu og efla efnahag okkar þjóðar til lengri tíma,“ sagði Halla Hrund að lokum.
Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Ég skora á ríkisstjórnina að setja af stað þjóðarátak í fæðuöryggi. Hér á ég við að efla innlenda matvælaframleiðslu og líka að bæði kortleggja og styðja við aðföng líkt og raforku, eldsneyti, áburð og annað sem þarf fyrir hana. Af hverju er þetta mikilvægt nú? Jú, við vitum að óvissan í heimsmálum er mikil. Bara í gær hækkuðu Bandaríkjamenn tolla á innflutning þeirra frá Kanada og Mexíkó, um fjórðung auk þess að herða viðskiptatakmarkanir gagnvart Kína. Við vitum að óvissan á mörkuðum er mikil og þetta bætist ofan á þá stöðu sem við höfum í Evrópu eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Ég held að það efist enginn um það að alþjóðasamvinna er gríðarlega mikilvægt svar við þessari þróun. Við þurfum að vera í hagsmunabaráttu, styðja við mál bæði austan hafs og vestan, en við þurfum líka að byggja upp og bæta okkar áfallaþol. Hér er ég að hugsa um að það er mikilvægt varnarviðbragð að hugsa um innviði okkar og mér finnst skorta skilning á því. Mér finnst einfaldlega skorta skilning á því að landbúnaður er hluti af innviðum okkar. Hluti af okkar varnarviðbragði á að vera að byggja hann upp alveg eins og við horfum á aðra innviði, t.d. á Suðurnesjunum. Mér finnst hafa skort skilning á þessu hjá ríkisstjórninni sem hefur birst m.a. í tollamálunum gagnvart mjólkurbændum og það birtist okkur í Kastljósi í gærkvöldi þar sem garðyrkjubændur eru að hugsa um að hætta starfsemi vegna hækkana á raforkuverði. Þetta er allt eitthvað sem hægt er að breyta með lagasetningu og mun ekki standa á okkur í Framsókn að styðja við. Ég held þess vegna að við eigum þvert á flokka að styðja við þjóðarátak í fæðuöryggi. Munum að það er líka eitthvað sem mun efla lýðheilsu og efla efnahag okkar þjóðar til lengri tíma.“