Categories
Fréttir

Frístundahús og bílskúrar þurfa ekki lengur byggingarleyfi

Deila grein

09/12/2021

Frístundahús og bílskúrar þurfa ekki lengur byggingarleyfi

Með síðustu breytingu á byggingarreglugerðinni um nýtt flokkunarkerfi þýðir að bygging einfaldari mannvirkja mun ekki lengur vera háð útgáfu byggingarleyfis, heldur nægir að hafa svokallaða byggingarheimild sem draga mun úr flækjustigi í byggingariðnaðinum. OECD gagnrýndi kerfið við leyfisveitingar í mannvirkjagerð í samkeppnismati sínu á íslenskum byggingariðnaði sem kynnt var á síðasta ári. Reglugerðin er viðbrögð við þeirri gagnrýni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra:
„Ég tel þetta vera mikilvægt skref á þeirri leið sem við höfum markað um að einfalda verulega alla stjórnsýslu og leyfisveitingar. Það hefur verið kallað eftir því lengi að minnka óþarfa flækjustig í einföldum framkvæmdum.

Við þurfum að nýta skynsamlega þá fjármuni sem við leggjum í eftirlit með mannvirkjum frekar en að senda fólk út og suður í að afla leyfa til að reisa einfalda skjólveggi eða girðingar.

Ég tel að með sameiningu stjórnsýslu húsnæðis-, skipulags- og byggingarmála í einu ráðuneyti, sem nú er að verða að veruleika, verði hægt að stíga fleiri skref til að einfalda leyfisveitingar, auka stafræna upplýsingagjöf og þannig lækka húsnæðisverð, sem skiptir höfuðmáli fyrir almenning.“

Breytingin nú er einungis fyrsta skrefið af nokkrum sem stigin verða á næstunni til að stytta og einfalda leyfisveitingar vegna byggingaframkvæmda. Markmiðið er að stytta verulega byggingartíma og með því sporna gegn óhóflegum verðsveiflum á húsnæðismarkaði.

Nýja flokkunarkerfið þýðir að bygging einfaldari mannvirkja mun ekki lengur vera háð útgáfu byggingarleyfis, heldur nægir að hafa svokallaða byggingarheimild sem mun draga verulega úr flækjustigi í slíkum framkvæmdum. Breytingin er í takt við áform um einföldun stjórnsýslu byggingamála sem fram koma í nýjum stjórnarsáttmála.
Framundan er frekari endurskoðun m.a. með hliðsjón af tillögum OECD sem gagnrýndi fyrra kerfi leyfisveitinga í mannvirkjagerð í samkeppnismati sínu á íslenskum byggingariðnaði á síðasta ári.