Fida Abu Libdeh, varaþingmaður, gagnrýndi ríkisstjórnina í störfum þingsins á Alþingi fyrir að standa ekki við yfirlýst markmið sín um að vera málsvari mannréttinda og alþjóðalaga. Hún sagði ríkisstjórnina hafa brugðist loforðum sínum varðandi stuðning við Palestínumenn eftir að Ísrael rauf vopnahlé þann 18. mars síðast liðinn.
Í aðdraganda kosninga lýstu ráðherrar yfir að Ísland myndi beita sér fyrir mannréttindum, réttlæti og styðja við börn og aðra varnarlausa hópa á átakasvæðum. Fida minnti sérstaklega á yfirlýsingar forsætisráðherra og utanríkisráðherra um að Ísland myndi taka leiðandi hlutverk meðal Norðurlandanna í viðbrögðum við mannréttindabrotum Ísraels.
„En hvað höfum við séð? Þögn. Frá 18. mars, þegar Ísrael rauf vopnahlé, hafa yfir 1.000 manns verið drepnir, þar af 355 börn. Þau sem lifa eru svelt af ásetningi. Ísrael hindrar að matur og lyf og hjálp berist,“ sagði Fida. Hún benti á að nýjustu fréttir greindu frá pyndingum og aftökum heilbrigðisstarfsfólks sem væri dæmi um alvarlega stríðsglæpi. Fida sagði það ekki samræmast yfirlýstri utanríkisstefnu Íslands að þegja þegar slík voðaverk eiga sér stað.
„Virðulegi forseti. Sem kona, sem móðir, sem þingkona fædd og alin upp í Palestínu get ég ekki horft á þessa þögn lengur. Hvað þýðir að vera málsvari mannréttinda ef við þegjum þegar börn eru drepin?“ spurði hún og bætti við að tími orða væri liðinn og nú væri kominn tími aðgerða.
Fida kallaði eftir því að ríkisstjórnin stæði við loforð sín og gripi til markvissra aðgerða. Hún hvatti sérstaklega til þess að Ísland tæki virkan þátt með Suður-Afríku í kærumáli gegn Ísrael og ynni að samræmdum viðskiptalegum þvingunum í samstarfi við Norðurlöndin. Fida sagði þetta skyldu Íslands sem smáríkis sem viðurkenndi sjálfstæði Palestínu árið 2011 og sæti á í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.
„Frjáls Palestína,“ sagði Fida að lokum.
***
Ræða Fidu í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Nú eru 100 dagar liðnir frá því að ný ríkisstjórn tók við. Í aðdraganda kosninga hétu ráðherrar því að Ísland myndi standa fyrir réttlæti, fyrir mannréttindi, standa með börnum í stríði, með þeim sem ekkert hafa nema vonir. Þar var sagt að Ísland yrði málsvari mannréttinda og alþjóðalaga. En hvað höfum við séð? Þögn. Frá 18. mars, þegar Ísrael rauf vopnahlé, hafa yfir 1.000 manns verið drepnir, þar af 355 börn. Þau sem lifa eru svelt af ásetningi. Ísrael hindrar að matur og lyf og hjálp berist. Nýjustu fréttir segja frá pyndingum og aftökum á heilbrigðisstarfsfólki. Líkin eru falin, merki glæpsins þurrkuð út. Þetta eru ekki bara staðreyndir, þetta eru stríðsglæpir. Ísland, sem segist byggja utanríkisstefnu sína á mannréttindum, þegir.
Virðulegi forseti. Sem kona, sem móðir, sem þingkona fædd og alin upp í Palestínu get ég ekki horft á þessa þögn lengur. Hvað þýðir að vera málsvari mannréttinda ef við þegjum þegar börn eru drepin? Við megum ekki leyfa afskiptaleysi að verða að stefnu Íslands. Tími orða er liðinn. Tími aðgerða er kominn. Ríkisstjórnin verður að standa við eigin loforð. Forsætisráðherra hefur kallað eftir því að Ísland leiði Norðurlöndin í samtali um viðskiptaþvinganir gegn Ísrael. Utanríkisráðherra segir að hernaðurinn beri merki þjóðarmorðs. En ef það er raunin, hvar eru aðgerðirnar? Ísland verður að taka virkan þátt með Suður-Afríku í kærumálinu gegn Ísrael. Við verðum að vinna að samræmdum viðskiptalegum þvingunum með Norðurlöndunum. Það er okkar skylda sem smáríkis sem viðurkenndi sjálfstæði Palestínu árið 2011 og á sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.
Frjáls Palestína.“