Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, fór yfir í ræðu í óundirbúnum fyrirspurnum röð „óheppilegra“ ákvarðana ráðherra ríkisstjórnarinnar undanfarinna vikna og sagði framgöngu einstakra ráðherra bera merki óvandaðra vinnubragða sem ættu ekki að líðast hjá framkvæmdarvaldinu.
Sigurður Ingi lýsti í ræðu sinni því að framlagning samgönguáætlunar hefði verið sett fram með miklum yfirlýsingum, en síðan hafi komið í ljós að innviðaráðherra hefði ekki kynnt sér til hlítar þær skýrslur sem áætlunin ætti að byggja á. Hann sagði slíkt grafalvarlegt þegar verið er að móta langtímasýn um innviði og fjárfestingar.
Sigurður Ingi beindi spjótum sínum að mennta- og barnamálaráðherra og sagði ráðherrann „fara um eins og stormur á jólanótt“ og „kippa mönnum úr embætti“, án þess að skýr lagastoð lægi fyrir og áður en ríkisstjórnin hefði tekið endanlegar ákvarðanir eða útfært málið. Hann sagði slíka stjórnsýslu minna á framgöngu félagsmálaráðherra í upphafi kjörtímabilsins, þegar ekki átti að skipa í stjórnir þar sem áform væru um að leggja þær niður síðar.
Í lokin sneri Sigurður Ingi sér að utanríkisráðherra og vísaði til þess að á síðasta kjörtímabili hefði Viðreisn gagnrýnt „fúsk“ og „óvönduð vinnubrögð“ í stjórnarframkvæmd. Hann spurði hvort utanríkisráðherra væri sammála forsætisráðherra, sem hann taldi hafa samþykkt aðgerðirnar og bera með þeim „meðvirka“ ábyrgð. Þá vildi hann vita hvort utanríkisráðherra hefði verið upplýst um umræddar ákvarðanir áður en þær komu fram og hvort hún myndi, ef hún gæti „spólað aftur í tíma“, sjálf kalla þetta „fúsk“, með sama orðfæri og Viðreisn hafi áður beitt þegar stjórnarhættir voru gagnrýndir.
