Categories
Fréttir

Góður árangur í áraraðir af starfi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa

Deila grein

10/05/2023

Góður árangur í áraraðir af starfi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, sagði í störfum þingsins ekki vilja sjá ríki og sveitarfélög skerða mikilvæga þjónustu sem félagsmiðstöðvar og ungmennahús vinna dag hvern. Bætti hann svo við og sagði:

„Ég legg til að það verði skoðað af alvöru að starfsemin flokkist undir lögbundna þjónustu hér á landi.“

Tekur hann hér undir nýlega ályktun frá Samfés um að faglegt starf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa flokkist sem lögbundin þjónusta. Eins ályktaði Samféls vegna áhyggna af því að þegar kreppir að verði félagsmiðstöðvar og ungmennahús fyrir barðinu á niðurskurði.

SamFestingurinn

„Hátíðin SamFestingurinn er haldin fyrir tilstilli Samfés, Landssamtaka félagsmiðstöðva og unglingahúsa á Íslandi. Félagsmiðstöðvar eru afdrep fyrir ungt fólk á aldrinum 10–16 ára þar sem þau geta sótt í félagsskap jafnaldra sinna og tekið þátt í skipulögðu tómstundastarfi,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Í starfinu eru ungmenni hvött til að skemmta sér saman án vímugjafa og áhersla er lögð á fjölbreytileika, þroska og félagsleg samskipti.
Ungmennahús sinna sambærilegu hlutverki en þar er ungmennum boðið upp á tómstundir sem hafa forvarna-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska.“

Starfsemin er mikilvæg nærsamfélaginu og hefur m.a. átt þátt í því að unglingadrykkja hefur minnkað á síðustu árum.

Samfés hefur birt ályktun um að faglegt starf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa flokkist sem lögbundin þjónusta. Þá hafa samtökin áhyggjur af því að þegar kreppir að verði félagsmiðstöðvar og ungmennahús fyrir barðinu á niðurskurði.

„Við ætlum okkur að fjárfesta í fólki, fjárfesta í ungu fólki, fjárfesta í fólki framtíðarinnar, með metnaðarfullu forvarnastarfi og með því að stuðla að jákvæðum þroska þeirra. Þetta hafa félagsmiðstöðvar og ungmennahús gert í áraraðir með góðum árangri,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Um síðustu helgi var hin árlega tónlistarhátíð SamFestingurinn haldin. Hátíðin er haldin fyrir tilstilli Samfés, Landssamtaka félagsmiðstöðva og unglingahúsa á Íslandi. Það er því við hæfi að ræða um mikilvægi starfsins sem félagsmiðstöðvar og ungmennahús vinna dag hvern. Félagsmiðstöðvar eru afdrep fyrir ungt fólk á aldrinum 10–16 ára þar sem þau geta sótt í félagsskap jafnaldra sinna og tekið þátt í skipulögðu tómstundastarfi. Í starfinu eru ungmenni hvött til að skemmta sér saman án vímugjafa og áhersla er lögð á fjölbreytileika, þroska og félagsleg samskipti. Ungmennahús sinna sambærilegu hlutverki en þar er ungmennum boðið upp á tómstundir sem hafa forvarna-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Starfsemin er mikilvæg nærsamfélaginu og hefur m.a. átt þátt í því að unglingadrykkja hefur minnkað á síðustu árum.

Samfés hefur birt ályktun um að faglegt starf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa flokkist sem lögbundin þjónusta. Þá hafa samtökin áhyggjur af því að þegar kreppir að verði félagsmiðstöðvar og ungmennahús fyrir barðinu á niðurskurði. Nýlegir atburðir minna okkur einnig á hversu mikilvægt það er að vinna gegn ofbeldi meðal ungmenna. Þar skipar forvarnastarf félagsmiðstöðvanna stóran sess.

Virðulegi forseti. Við ætlum okkur að fjárfesta í fólki, fjárfesta í ungu fólki, fjárfesta í fólki framtíðarinnar, með metnaðarfullu forvarnastarfi og með því að stuðla að jákvæðum þroska þeirra. Þetta hafa félagsmiðstöðvar og ungmennahús gert í áraraðir með góðum árangri. Ég biðla því til ríkis og sveitarfélaga að skerða ekki þá mikilvægu þjónustu sem þau veita unga fólkinu okkar. Ég legg til að það verði skoðað af alvöru að starfsemin flokkist undir lögbundna þjónustu hér á landi.“