Categories
Fréttir

Göng milli Vestmannaeyja og lands

Deila grein

11/10/2024

Göng milli Vestmannaeyja og lands

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins vinnu starfshóps um skoðum á hversu fýsilegt er að leggja göng milli Vestmannaeyja og lands. Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi innviðaráðherra, skipaði starfshópinn til þess að skoða málið gaumgæfilega.

„Nú berast mér fréttir um að hópurinn sé á lokametrunum að skila af sér skýrslu til núverandi innviðaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, og er það vissulega mikið fagnaðarefni,“ sagði Jóhann Friðrik.

Starfshópurinn er skipaður öflugu fólki og vinna hópsins hefur gengið vel þó um sé að ræða ærið verkefni. Í framhaldi velti Jóhann Friðrik fyrir sér hver gæti orðið möguleg niðurstaða skýrslunnar.

„Ég er auðvitað að vonast eftir því að hún verði jákvæð fyrir Vestmannaeyinga og landsmenn alla. Það er mjög mikilvægt að við skoðum gaumgæfilega hvaða skref er hægt að taka ef það er á annað borð fýsilegt að leggja göng til Vestmannaeyja. Það hefði gríðarlega jákvæð áhrif á lífskjör Vestmannaeyinga, og landsmanna allra, segi ég. Það hefur auðvitað verið gríðarleg uppbygging í Vestmannaeyjum á undanförnum árum og ég leyfi mér að segja sú mesta frá því fyrir gos, þar sem bæði landeldi og ferðaþjónusta hefur verið að blómstra, Vestmannaeyingum hefur verið að fjölga og það verður mjög fróðlegt að heyra niðurstöður þessarar skýrslu. Ég hlakka til og vonast til þess að geta verið viðstaddur þegar sú kynning fer fram þannig að við getum tekið næstu skref í þessari vegferð fyrir Eyjamenn,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Frú forseti. Svo það komi fram þá hyggst ég ekki fara að pakka neinu saman í bili en ég er hér kominn upp í störfunum til að lyfta upp mikilvægu máli sem snýr að Vestmannaeyjum. Vestmannaeyingar, ásamt bæjarstjórninni þar, hafa kallað eftir því að við skoðum almennilega hversu fýsilegt er að leggja göng milli Vestmannaeyja og lands. Sú áskorun kom fyrir svolitlu síðan og Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi innviðaráðherra, skipaði starfshóp til þess að skoða málið gaumgæfilega. Nú berast mér fréttir um að hópurinn sé á lokametrunum að skila af sér skýrslu til núverandi innviðaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, og er það vissulega mikið fagnaðarefni. Þessi starfshópur, sem var settur á laggirnar að mig minnir í fyrra, er skipaður ansi öflugu fólki. Þar er bæði fagleg og svæðisbundin þekking. Það er Kristín Jónsdóttir, eldfjalla- og jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofunni, sem leiðir hópinn en einnig eiga sæti í hópnum jarðeðlisfræðingurinn Freysteinn Sigmundsson, Freyr Pálsson fyrir hönd Vegagerðarinnar, Anton Kári Halldórsson fyrir Rangárþing eystra og Gylfi Sigfússon fyrir Vestmannaeyjabæ. Frá því að hópurinn hóf störf skilst mér að vinnan hafi gengið vel. Þetta er að sjálfsögðu ærið verkefni.

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hver niðurstaðan verður. Ég er auðvitað að vonast eftir því að hún verði jákvæð fyrir Vestmannaeyinga og landsmenn alla. Það er mjög mikilvægt að við skoðum gaumgæfilega hvaða skref er hægt að taka ef það er á annað borð fýsilegt að leggja göng til Vestmannaeyja. Það hefði gríðarlega jákvæð áhrif á lífskjör Vestmannaeyinga, og landsmanna allra, segi ég. Það hefur auðvitað verið gríðarleg uppbygging í Vestmannaeyjum á undanförnum árum og ég leyfi mér að segja sú mesta frá því fyrir gos, þar sem bæði landeldi og ferðaþjónusta hefur verið að blómstra, Vestmannaeyingum hefur verið að fjölga og það verður mjög fróðlegt að heyra niðurstöður þessarar skýrslu. Ég hlakka til og vonast til þess að geta verið viðstaddur þegar sú kynning fer fram þannig að við getum tekið næstu skref í þessari vegferð fyrir Eyjamenn.“