Categories
Fréttir

„Grafalvarleg staða á Sjúkrahúsinu á Akureyri“

Deila grein

06/10/2025

„Grafalvarleg staða á Sjúkrahúsinu á Akureyri“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, vakti máls í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi uppsagnar ferliverkasamningum við sérfræðilækna á sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk). „Það er ljóst að þjónustan mun dragast verulega saman ef ekki finnst lausn á málinu,“ sagði Ingibjörg og benti á að um væri að ræða 13 sérgreinalækna á sviðum hjarta-, krabbameins-, kvensjúkdóma-, meltingar- og lyflækninga. „Þjónusta sem íbúar á Norðurlandi og víðar hafa hingað til getað treyst á og er okkur nauðsynleg.“

Ingibjörg sagði að áhyggjur væru ekki einungis hjá starfsfólki og sjúklingum, heldur einnig hjá heilsugæslulæknum á upptökusvæði SAk og læknum á Landspítala, sem sjái ekki fram á að geta tekið við öllum þeim sjúklingum sem leiti suður ef þjónustan hverfur af Akureyri. „Þetta er því, má segja, kerfislægt vandamál, ekki staðbundið,“ sagði hún.

Ferliverkasamningar lykill að þjónustu utan höfuðborgarsvæðis

Samningarnir hafi verið við lýði í áratugi, boðnir af stofnunum og samþykktir af stjórnvöldum. „Þeir hafa verið lykillinn í því að tryggja sérfræðiþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins og hafa reynst aðilum vel og ekki síður sjúklingum.“ Hún lýsti jafnframt manneklu, auknum afleysingum og hlutastörfum lækna sem ekki væru búsettir á svæðinu, sem geri eftirfylgni erfiðari.

Var ráðherra í samráði?

Ingibjörg beindi beinum spurningum til heilbrigðisráðherra:

  • hvort ráðherra hafi verið í samráði við stjórn SAk áður en ákvörðunin var tekin,
  • hvort ráðuneytið sé virkt í leit að lausn með stjórnendum SAk,
  • og hvort ráðherra tryggi að sérfræðiþjónusta haldist á Akureyri „svo landsbyggðarfólk haldi áfram jöfnum rétti til heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.“

Verði samningarnir felldir niður eða læknar dragi saman seglin gæti SAk átt erfitt með að sinna hlutverki sínu sem varasjúkrahús. Ingibjörg varaði við að loka þyrfti göngudeildum og senda sjúklinga til rannsókna og meðferðar suður, sem gæti tafið greiningar og meðferð.

„Ef hluti þjónustunnar hverfur nú mun taka mörg ár að endurreisa hana… sérgreinar styðja hver aðra. Ef ein hverfur veikist önnur,“ sagði Ingibjörg.