Categories
Fréttir

Grunnstoð samfélagsins

Deila grein

27/05/2019

Grunnstoð samfélagsins

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skrifar grein í Fréttablaðinu 15. maí s.l. um áherslu Sameinuðu þjóðanna á mikilvægi fjölskyldunnar er kemur að aðgerðum í loftslagsmálum.
„Stór verkefni eru fram undan til að Ísland nái markmiðum sínum í þeim efnum og ljóst að þeim verður ekki náð nema með átaki samfélagsins í heild. Þar hefur ekki skort þátttöku íslenskra barna og unglinga sem meðal annars hafa skipulagt loftslagsverkföll á Austurvelli og víðar um landið síðustu mánuði. Þrátt fyrir að kolefnisfótspor hverrar fjölskyldu sé lítið í stóra samhenginu er ljóst að fjölskyldur landsins munu í sameiningu gegna risastóru hlutverki í baráttunni fram undan,“ segir Ásmundur Einar.
„Við hvert fótmál bíða foreldra og barna þeirra nýjar hindranir og áskoranir, miserfiðar. Við þurfum öll á aðstoð að halda á einhverjum tímapunkti. Til þess að vel takist til þurfum við að búa til samfélag sem veitir hana þegar hennar er þörf og styður betur við þessa dýrmætustu einingu okkar, fjölskylduna. Það er einmitt á meðal markmiða heildarendurskoðunar á þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra sem nú stendur yfir í félagsmálaráðuneytinu í samvinnu þvert á ráðuneyti, við Samband íslenskra sveitarfélaga og með liðsinni þingmanna úr öllum flokkum,“ segir Ásmundur Einar.