Categories
Fréttir

Gunnar nýr formaður SUF

Deila grein

06/09/2023

Gunnar nýr formaður SUF

Liðna helgi fór fram 48. Sambandsþing Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) á Sauðárkróki. Þar sat ungt Framsóknarfólk og vann öflugt málefnastarf ásamt því að kjósa sér nýja stjórn og nýjan formann, Gunnar Ásgrímsson. Fráfarandi formaður SUF er Unnur Þöll Benediktsdóttir en hún hefur gegnt formennsku nú í tvö kjörtímabil.

Gunnar, nýr formaður, er 23 ára Skagfirðingur sem stundar nám í kennslufræði við Háskóla íslands og starfar sem stuðningsfulltrúi í Háteigsskóla. Gunnar hefur verið virkur í félagsstarfi flokksins og innan sambandsins síðan 2018, og síðustu þrjú árin setið í framkvæmdastjórn SUF, fyrst sem ritari en síðustu tvö ár sem varaformaður undir formennsku fráfarandi formanns, Unnar Þallar.

„Ég hlakka mikið til komandi starfsárs, við erum með flotta stjórn sem ég hef mikla trú á, en það eru stór verkefni framundan í vetur. Það verður flokksþing hjá Framsókn í vor þar sem við í SUF munum svo sannarlega láta í okkur heyra, eins og á öðrum viðburðum flokksins síðustu ár. Helstu verkefnin munu því tengjast málefnastarfinu okkar en einnig má búast við fjölbreyttu viðburðastarfi hjá okkur. Það hefur heppnast vel að halda svokölluð Skuggaráðuneyti, þar sem ungt Framsóknarfólk fær að spjalla við ráðherrana okkar, en einnig þeir Örfundir sem við höfum átt með þingmönnum og sveitarstjórnarfólki um hin ýmsu mál. Má því búast við miklu þetta ár og hvet ég því áhugasöm um að mæta á viðburði hjá okkur í vetur.“ – Gunnar Ásgrímsson.

Mörg deilu- og hitamál voru rædd á þinginu, þar á meðal útlendingamál, samgöngusáttmáli, heilbrigðismál, menntamál og hvalveiðar. Allar ályktanir þingsins verða birtar á samfélagsmiðlum SUF og hér á vefnum á næstu dögum.

Einnig var kosið í nýja stjórn SUF og er hún eftirfarandi:

  • Ágúst Guðjónsson
  • Berglind Sunna Bragadóttir
  • Díana Íva Gunnarsdóttir
  • Hafdís Lára Halldórsdóttir
  • Heiðdís Geirsdóttir
  • Hrafn Splidt Þorvaldsson
  • Inga Berta Bergsdóttir
  • Karel Bergmann Gunnarsson
  • Mikael Jens Halldórsson
  • Ólöf Rún Pétursdóttir
  • Skúli Bragi Geirdal
  • Urður Björg Gísladóttir

Á nýliðnu Sambandsþingi var unnið öflugt málefnastarf þar sem málefnum var skipt upp í fjóra flokka. Eftirfarandi eru þær ályktanir sem samþykktar voru á 48. Sambandsþingi SUF. 

Innviði, umhverfi, orka og loftslag

  • Ungt Framsóknarfólk vill að veiðar á hvölum verði lagðar af.
  • Ungt Framsóknarfólk telur brýnt að styðja við styrkingu innviða fjölfarinna ferðamannastaða á Íslandi til að þola ágang ásamt því að eðlilega dreifingu ferðafólks um allt land verði tryggð með því að leggja áherslu á staði sem færri ferðamenn sækja heim vegna ófullnægjandi innviða.
  • Ungt Framsóknarfólk styður samgöngusáttmála Höfuðborgarsvæðisins enda felur sáttmálinn í sér bættar samgöngur fyrir alla ferðamáta sem minnka eiga tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun.
  • Ungt Framsóknarfólk telur að huga eigi að betri nýtingu þeirrar raforku sem nú þegar er framleidd með jafnari nýtingu utan álagstíma. Til dæmis með vetnisframleiðslu að nóttu til.
  • Ungt Framsóknarfólk styður markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi og full orkuskipti eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti. Til að það markmið nái fram að ganga verður að auka framboð raforku í landinu og hvetur ungt Framsóknarfólk því ríkisstjórnina til þess að skoða frekari virkjunarkosti með sjálfbærni í huga.
  • Ungt framsóknarfólk vill minna á að í lok áratugarins þurfa öll ríki heimsins að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Því er nauðsynlegt að heimsmarkmiðin verði höfð enn frekar að leiðarljósi í vinnu ríkis og sveitarfélaga sem og fyrirtækja.
  • Ungt Framsóknarfólk vill að settar verði hömlur á hækkun leiguverðs húsnæðis í langtíma útleigu yfir fyrirfram ákveðið tímabil og samhliða verði þróun húsaleigubóta látin fylgja verðlagsþróun.

Heilbrigði og málefni eldra fólks

  • Ungt Framsóknarfólk vill að lausasala ólyfseðilskyldra lyfja verði gerð heimil í almennum verslunum.
  • Ungt Framsóknarfólk hvetur heilbrigðisráðherra til þess að tryggja getu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til þess að starfrækja á ný heilsugæslusel á Suðurnesjum samfara auknum áherslum á aðgengi og fyrirbyggjandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu.
  • Ungt Framsóknarfólk skorar á háskólaráðherra að fullfjármagna nám í heilabilunarráðgjöf við Háskólann á Akureyri
  • Ungt Framsóknarfólk vill heimila blóðgjöf einstaklinga óháð kynhneigð og kynlífshegðun blóðgjafanna. Núverandi reglugerð er úrelt og útilokar stóran hóp hugsanlegra blóðgjafa ásamt því að hún er lituð af fordómum gagnvart hinsegin fólki
  • Ungt Framsóknarfólk vill ókeypis getnaðarvarnir fyrir fólk yngra en 25 ára á Íslandi.
  • Ungt Framsóknarfólk hvetur ráðuneyti háskólamála að nýta menntasjóð námsmanna til að efla stöðu heilbrigðisstarfsmanna á landsbyggðinni.
  • Ungt Framsóknarfólk fagnar því að samningar hafið náðst við ségreinalækna.
  • Ungt Framsóknarfólk fagnar því að sjúkratryggingar Íslands hækka greiðsluþátttöku til tannréttinga.
  • Ungt Framsóknarfólk vill að tryggt verði að heilsugæslur um allt land séu vel tækjum búnar og ákjósanlegur vinnustaður. Einnig leggur ungt Framsóknarfólk áherslu á að heilsugæslustöðvar séu vel aðgengilegar um allt land.

Efnahagur, utanríkismál, stjórnskipan, menning, mannréttindi og málefni innflytjenda

  • Ungt Framsóknarfólk vill að þau fornu íslensku handrit sem eru enn í vörslu í Danmörku verði flutt heim. Meðal þeirra sjöhundruð handrita sem eru enn eftir í Danmörku eru Heimskringla Snorra Sturlusonar, Snorra-Eddu handrit og Reykjabók Njálu sem er elsta heillega handrit Njálu. Það er táknrænt fyrir hina íslensku þjóð að þessum menningararfi verði skilað.
  • Ungt Framsóknarfólk hvetur stjórnvöld til þess að stytta og einfalda umsóknarferli fyrir dvalar- og atvinnuleyfi hérlendis.
  • Ungt Framsóknarfólk telur brýnt að skýrt sé kveðið á um hvað taki við eftir að einstaklingi er synjað um alþjóðlega vernd og grunnþjónusta fellur niður.
  • Ungt Framsóknarfólk ítrekar að skattþrep tekjuskatts verði endurskoðuð með reglubundnum hætti í samræmi við launaþróun, sem léttir skattbyrði lág- & meðaltekjufólks.

Atvinna, menntun og börn

  • Ungt Framsóknarfólk telur að hækka þurfi frítekjumark Menntasjóðs námsmanna í samræmi við verðlags- og launaþróun. Einstaklingar eiga ekki að verða fyrir óhóflegum skerðingum vinni þeir með námi.
  • Ungt Framsóknarfólk telur að þörf sé á auka stafræna miðlun kennsluefnis og fjölga þeim námsleiðum sem í boði eru í stafrænu námi og fjarnámi í ríkisreknum háskólum. Aðgengi að námi á ekki að vera háð búsetu, fjárhag eða fjölskylduaðstæðum.
  • Ungt Framsóknarfólk telur að viðurkenna þurfi leikskóla sem fyrsta skólastigið af löggjafanum. 
  • Ungt Framsóknarfólk telur að endurskoða þurfi stöðu dönskukennslu sem skyldufag í grunn- og framhaldsskólum
  • Ungt Framsóknarfólk telur að efla þurfi vægi samfélagsgreina og lífsleikni í aðalnámskrá grunnskólanna.

Unni Þöll er þakkað fyrir vel unnin störf!

Í dag skila ég af mér minu stærsta verkefni hingað til, formennsku í Sambandi ungra Framsóknarmanna. Ég óska nýrri…

Posted by Unnur Þöll Benediktsdóttir on Sunnudagur, 3. september 2023