Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur undirritað viljayfirlýsingu um opnun heilsugæslustöðvar í Suðurnesjabæ ásamt Guðlaugu Rakel forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) og Magnúsi Stefánssyni bæjarstjóra.
Markmiðið með viðbótarstarfsstöð HSS í Suðurnesjabæ er að bæta aðgengi að heilsugæsluþjónustu í sveitarfélaginu, færa hana nær íbúum og styrkja um leið þjónustuna við íbúa. Á starfstöðinni verður í boði almenn heilsugæsluþjónusta á ákveðnum tímum. Fyrirkomulagið fellur vel að áherslum stjórnvalda um jafnt aðgengi óháð búsetu og því verkefni að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað notenda innan heilbrigðiskerfisins. Áætlað er að þjónustan á nýrri starfsstöð verði aðgengileg íbúum næsta vor.
Suðurnesjabær varð til við sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs fyrir 6 árum og er ört vaxandi sveitarfélag. Íbúum hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum og telur íbúafjöldi í Suðurnesjabæ 4.184 íbúa. Þjónustan verður staðsett í Vörðunni, húsnæði Suðurnesjabæjar að Miðnestorgi 3 í Sandgerði.
Langþráð ákvörðun og mun skipta sköpum fyrir aðgengi íbúa!
„Það er sannarlega mikið fagnaðarefni að baráttan fyrir bættri heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum sé nú að skila sér í undirritun viljayfirlýsingar um rekstur heilsugæslusels í Suðurnesjabæ. Þessi ákvörðun er langþráð og mun skipta sköpum fyrir aðgengi íbúa sem hefur verið ábótavant frá því að þjónusta Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var lögð niður í sveitarfélaginu vegna fjárskorts. Álagið á heilsugæsluna í Reykjanesbæ hefur aukist verulega á undanförnum árum og því er opnun heilsugæslusels afar brýn, í næst stærsta bæjarfélagi á Suðurnesjum, til þess að færa þjónustuna nær íbúunum,“ segir Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður.
Mikilvægur áfangi fyrir íbúa í Suðurnesjabæ Það er sannarlega mikið fagnaðarefni að baráttan fyrir bættri…
Posted by Jóhann Friðrik Friðriksson on Föstudagur, 30. ágúst 2024
„Þegar ég settist á Alþingi, gerði ég það að forgangsverkefni mínu að bæta heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum enda var það eitt mikilvægasta verkefnið í hugum kjósenda á svæðinu. Ég lagði áherslu á aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og lagði fram þingsályktun um heilsugæslusel í Suðurnesjabæ tvívegis. Ég fékk verulega góðan stuðning Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra auk bæjarfulltrúa flokksins í Suðurnesjabæ og bæjarstjóra sem nú er að skila árangri öllum til heilla. Frá því að ég hóf baráttu mína hefur árangurinn í heilbrigðismálum verið verulegur. Ný einkarekin heilsugæsla hóf starfsemi við Aðaltorg í Reykjanesbæ, sem hefur stórbætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á svæðinu og fengið afar jákvæðar viðtökur. Stöðin er að auki fyrsta einkarekna heilsugæslan sem starfar samkvæmt nýju fjármögnunarlíkani fyrir landsbyggðina. Það gekk ekki þrautalaust að ná fram slíkum árangri en dropinn holar steininn,“ segir Jóhann Friðrik.
Heilbrigðisþjónusta í Suðurnesjabæ verður að veruleika!
Anton Guðmundsson, bæjarfulltrúi og oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ, segir „bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að heilsugæsluþjónusta verði veitt í sveitarfélaginu. Við í Framsókn hófum tafarlaust samtöl við þingmenn okkar í Suðurkjördæmi, Sigurð Inga, fjármálaráðherra, Jóhann Friðrik og Hafdísi Hrönn, til að þrýsta á málið. Einnig höfum við átt fundi og samtöl við Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Með miklum samtakamætti og samvinnuhugsjónina að leiðarljósi er þetta mikilvæga réttlætismál nú að raungerast – heilbrigðisþjónusta verður brátt í boði í heimabyggð fyrir okkar íbúa. Með tvo bæjarfulltrúa í Suðurnesjabæ, þrjá þingmenn í Suðurkjördæmi og heilbrigðisráðherra er slagkraftur okkar í Framsókn mikill.“
Heilbrigðisþjónusta í Suðurnesjabæ verður að veruleika ✅Í dag undirritaði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra,…
Posted by Anton Guðmundsson on Föstudagur, 30. ágúst 2024