Categories
Fréttir

Hlutdeildarlán – mikilvægur möguleiki fyrir fyrstu kaupendur

Deila grein

21/08/2025

Hlutdeildarlán – mikilvægur möguleiki fyrir fyrstu kaupendur

„Það er ánægjulegt að sjá áhuga landsmanna á hlutdeildarlánunum. Fjöldi umsókna sýnir að þetta úrræði skiptir máli og hefur raunverulega þýðingu fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði,“ segir Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) bárust alls 33 umsóknir um hlutdeildarlán í ágúst, að andvirði um 513 milljóna króna. Til úthlutunar fyrir tímabilið eru hins vegar aðeins 333 milljónir króna. HMS stefnir að því að ljúka afgreiðslu umsókna í síðari hluta næstu viku.

Af umsóknunum 33 voru 28 með samþykkt kauptilboð, samtals að andvirði 429 milljóna króna. Aðeins fjórar umsóknir bárust vegna kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.

„Ég tel mikilvægt að við lærum af reynslunni og skoðum hvort og hvernig hægt sé að útvíkka hlutdeildarlánin svo fleiri geti nýtt sér þau. Sérstaklega þurfum við að huga að því hvernig þau nýtast betur utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem hlutfall umsókna hefur farið lækkandi. Við eigum að byggja á því sem hefur reynst vel og skapa fleiri tækifæri fyrir fólk til að eignast eigið heimili,“ segir Ingibjörg.

Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa til boða fyrir fyrstu kaupendur og þá sem ekki hafa átt íbúð síðastliðin fimm ár, að uppfylltum tekjumörkum.