Categories
Fréttir

Hlutdeildarlánin hjálpa ungu fólki inn á húsnæðismarkaðinn

Deila grein

23/05/2025

Hlutdeildarlánin hjálpa ungu fólki inn á húsnæðismarkaðinn

„Hlutdeildarlánin hafa skipt raunverulegu máli fyrir ungt og tekjulágt fólk sem vill eignast eigið húsnæði,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, í færslu sem hann birtir á Facebook eftir að hafa fengið svör frá félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi.

Í svarinu kemur fram að frá því úrræðið var tekið í notkun í lok árs 2020 hafi verið veitt samtals 1.006 hlutdeildarlán að upphæð 10,4 milljarðar króna. „Gögnin sýna skýrt að þetta úrræði hefur skipt raunverulegu máli,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að ríkissjóður eigi eignarhlut í þessum íbúðum og virði þeirra hafi hækkað, sem skapi ávinning fyrir samfélagið allt.

Mest nýtt á höfuðborgarsvæðinu

Flest lánin hafa verið veitt í Reykjavík (249 lán), Hafnarfirði (204 lán) og Reykjanesbæ (139 lán). Úrræðið hefur hins vegar náð til 29 sveitarfélaga víðsvegar um landið, þar á meðal Akureyrar, Akraness og Árborgar.

„Við í Framsókn munum áfram vinna að því að húsnæðismarkaðurinn verði réttlátari og aðgengilegri fyrir unga fólkið og fyrstu kaupendur,“ segir Sigurður Ingi.

Hækkað virði – en kostnaður áfram óviss

Í svari ráðherra kemur einnig fram að virði útistandandi lána nemi nú 12,8 milljörðum króna, þrátt fyrir að upphaflega fjárhæð þeirra hafi verið 9,5 milljarðar. Óinnleystur ábati er því metinn á um 3,3 milljarða, en jafnframt kemur fram að framtíðarafkoma lánanna sé óviss þar sem hún ræðst af þróun fasteignaverðs.

Alls hafa 112 lán þegar verið greidd upp, og hefur uppgreiðsluvirði þeirra verið að meðaltali 34% hærra en upphaflegt lánsfé.

Horft til framtíðar

Áætlað er að veitt verði um 300 hlutdeildarlán á þessu ári og um 260 á ári næstu fjögur ár. Spurður um hvort fyrirkomulagið verði endurskoðað, til að mæta hækkandi fasteignaverði og gefa fleiri hópum tækifæri til húsnæðiskaupa, segir ráðherra að tekjuviðmið og hámarksverð lánanna séu endurskoðuð árlega. Hins vegar hafi ekki verið tekin ákvörðun um breytingar í ár.

Hlutdeildarlánin ‒ Leið að réttlátari húsnæðismarkaði Í gær bárust mér ánægjuleg svör frá félags- og…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Fimmtudagur, 22. maí 2025

156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 532  —  343. mál.

Svar félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Inga Jóhannssyni um hlutdeildarlán.

     1.      Hversu mörg hlutdeildarlán hafa verið veitt frá upphafi og hver er uppsöfnuð heildarfjárhæð þeirra?
    Frá því hlutdeildarlán voru tekin í notkun í árslok 2020 hafa verið veitt 1.006 hlutdeildarlán að upphæð samtals 10,4 milljarðar kr. Með „veittum lánum“ er átt við þau lán sem eru að fullu frágengin og íbúðir teknar í notkun.

     2.      Hvernig skiptast veitt hlutdeildarlán eftir sveitarfélögum?
    Hlutdeildarlán hafa fram til þessa verið veitt til kaupa á íbúðum í alls 29 sveitarfélögum um allt land. Fjölda veittra lána og lánsfjárhæð eftir sveitarfélögum má sjá í eftirfarandi töflu:

SveitarfélagFjöldi lánaHlutfallHeildarlánsfjárhæð í kr.
Reykja­vík­ur­borg24924,75%2.546.058.423
Hafn­ar­fjarðar­kaupstaður20420,28%2.651.337.900
Reykja­nes­bær13913,82%1.128.483.214
Ak­ur­eyr­ar­bær626,16%458.976.469
Akra­nes­kaupstaður565,57%447.384.600
Sveitarfélagið Árborg545,37%495.744.600
Garðabær525,17%709.262.000
Sveitarfélagið Vog­ar343,38%384.108.400
Mos­fells­bær272,68%282.691.900
Sveitarfélagið Ölfus262,58%259.972.200
Kópa­vogs­bær252,49%332.240.300
Suður­nesja­bær191,89%175.190.800
Hvera­gerðis­bær121,19%108.542.800
Dal­vík­ur­byggð70,70%60.205.725
Hval­fjarðarsveit70,70%71.018.500
Múlaþing60,60%61.530.000
Fjarðabyggð50,50%47.394.600
Rangárþing ytra40,40%23.311.900
Hörgár­sveit40,40%33.960.000
Borg­ar­byggð30,30%28.600.000
Húna­byggð20,20%16.630.000
Ísa­fjarðarbær20,20%14.801.400
Skaftár­hrepp­ur10,10%8.200.000
Grinda­vík­ur­bær10,10%7.600.000
Bol­ung­ar­vík­ur­kaupstaður10,10%8.200.000
Rangárþing eystra10,10%8.217.000
Vest­ur­byggð10,10%7.900.000
Bláskóga­byggð10,10%10.387.800
Sveitarfélagið Stykk­is­hólm­ur10,10%5.740.000
Samtals1.00610.393.690.531

     3.      Hver hafa fjárhagsleg áhrif hlutdeildarlána verið á ríkissjóð vegna skuldbindingar annars vegar og sölu hins vegar?
    Útistandandi hlutdeildarlán eru að upphaflegri fjárhæð um 9,5 milljarðar kr. Miðað við þróun fasteignaverðs er virði þeirra nú 12,8 milljarðar kr. og óinnleystur mismunur því um 3,3 milljarðar kr.
    Framtíðarafkoma af hlutdeildarlánum er óviss í ljósi þess að endurgreiðsla þeirra tekur mið af íbúðaverði. Mat sem fram hefur farið á hugsanlegu markaðsvirði (gangvirðismati) gefur til kynna að núverandi verðmæti útistandandi lána sé á bilinu 7–8,3 milljarðar kr. Miðað við þá stöðu er heildarkostnaður/skuldbinding af veitingu hlutdeildarlána því á bilinu 0,9–2,2 milljarðar kr.
    Hlutdeildarlán eru veitt til 10 ára með heimild til framlengingar á lánstímanum í 5 ár í senn þó að hámarki til 25 ára samtals. Lánin skal endurgreiða við sölu fasteignar í samræmi við verðþróun hennar á lánstímanum. Lántakendur hafa hingað til greitt upp 112 lán þar sem uppgreiðsluvirði lánanna hefur verið um 34% hærra en höfuðstóll þeirra.
    Upplýsingar um fjölda og fjárhæðir uppgreiddra lána (eftir uppgreiðsluári) má sjá í eftirfarandi töflu:

ÁrFjöldi lánaÚtgefið lán í kr.Uppgreiðsluvirði í kr.Mismunur
202114.112.0005.280.0001.168.00028,4%
20221183.385.100108.949.20025.564.10030,7%
202337287.912.981377.848.14789.935.16631,2%
202444371.993.480505.854.745133.861.26536,0%
202519161.345.830221.202.22960.276.39937,4%
Samtals112908.749.3911.219.134.321310.804.93034,2%

     4.      Hversu mörg hlutdeildarlán er áætlað að veita á yfirstandandi ári og næstu fjögur ár, þ.e. á tímabilinu 2025–2029?
    Gera má ráð fyrir að um 300 hlutdeildarlán verði veitt á yfirstandandi ári. Miðað við áætlaðar lánaheimildir og meðalverð íbúða sem fengið hafa hlutdeildarlán síðustu mánuði má áætla að fjöldi íbúða sem fá hlutdeildarlán næstu fjögur árin geti orðið u.þ.b. 260 á hverju ári.

     5.      Telur ráðherra tilefni til að endurskoða forsendur hlutdeildarlána, svo sem hámarksverð og tekjuviðmið, til þess að gefa fleiri hópum samfélagsins færi á að eignast fasteign, m.a. í ljósi hækkandi fasteignaverðs?
    Töluverð umframeftirspurn hefur verið eftir hlutdeildarlánum og hefur það fjármagn sem til ráðstöfunar hefur verið hverju sinni því verið fullnýtt í úthlutunum síðustu misseri. Bæði hámarksverð hlutdeildarlánaíbúða og tekjumörk lántaka hlutdeildarlána eru endurskoðuð árlega. Fylgst er með verðþróun á byggingar- og fasteignamarkaði en ekki hefur verið tekin ákvörðun að svo stöddu um hvort hámarksverð og tekjumörk vegna hlutdeildarlána verði hækkuð við árlega endurskoðun í ár. Á sama tíma og hækkun fasteignaverðs getur leitt til þess að hækka þurfi hámarksverð hlutdeildarlánaíbúða er mikilvægt að slíkar hækkanir séu eins hóflegar og unnt er til að þær stuðli ekki að frekari hækkun fasteignaverðs í landinu. Hámarksverð er breytilegt eftir staðsetningu íbúða og tekur mið af markaðsaðstæðum hverju sinni. Misjafnt getur því verið hversu mikið þarf að hækka hámarksverð hlutdeildarlánaíbúða eftir því hvar þær eru staðsettar og miðast endurskoðunin við að hámarksverð hlutdeildarlána endurspegli raunverulegt verð á hagkvæmu húsnæði á viðkomandi svæði.

***