Categories
Fréttir

Hönnunarsjóður stækkar

Deila grein

16/01/2023

Hönnunarsjóður stækkar

Framlög til Hönnunarsjóðs nema alls 80 milljónum kr. árið 2023 og hækka um 30 milljónir kr. frá fyrra ári. Stefnumótun í málefnum hönnunar og arkitektúrs verður kynnt á næstu vikum.

„Við viljum auka slagkraft og áhrif Hönnunarsjóðs sem er mikilvægur liður í að efla verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs hér á landi. Fyrir tilstilli framlaga sjóðsins hefur mörgum spennandi nýskapandi verkefnum verið hrint í framkvæmd og þau hjól halda mörg áfram að snúast af krafti. Styrkur úr Hönnunarsjóði er mikilvæg lyftistöng og viðurkenning, og oft fyrsta skref að einhverju stærra,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Hlutverk Hönnunarsjóðs er að efla þekkingu og atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi og ráðgjöf. Sjóðurinn styrkir einnig kynningar- og markaðsstarf hér á landi og erlendis með það að markmiði að auka útflutning. Opið er fyrir umsóknir í sjóðinn en umsóknafrestur vegna fyrri úthlutunar hans er til 7. febrúar nk.

Sjá nánar á vef Hönnunarsjóðs.

Heimild: stjr.is