Það er alltaf mjög erfitt að sjá á bak áralöngu jafnvel áratuga ræktunarstarfi þegar skorið er niður vegna riðu. Í sjálfu sér er nægjanlega erfitt að verða fyrir áfallinu. Þess vegna er mikilvægt að allt umleikis ákvörðunina, framkvæmdina og eftirfylgdina sé klárt, tilbúið, úthugsað. Því miður er það ekki svo.
Vissulega er árangur af baráttunni við riðuna. Engu að síður er rétt að staldra við og huga að endurskoðun alls verklags og vinnu. Markmiðið hlýtur áfram að vera að útrýma vágestinum.
Því þarf að stórauka rannsóknir, setja kraft í vísindalega umræðu og stefnumörkun. Samhliða að yfirfara vegferðina, meta árangurinn og fórnarkostnaðinn. Það er til mikið af gögnum.
Spurningin sem vaknar er það hægt með öðrum leiðum? Það er óvíst. En er hægt að ná markmiðinu með minni fórnarkostnaði. Öðruvísi niðurskurði, t.a.m. eftir ættlínum, aldri eða hverju öðru sem vísindaleg nálgun gæfi. Væri hægt að ná árangri samhliða – vissulega á löngum tíma – með markvissum rannsóknum og ræktunarstarfi sbr. það sem nú er í gangi? Gagnvart bændum þarf að bæta umgjörðina. Þegar greining á sjúkdómnum liggur fyrir þarf að taka ákvörðunina fljótt, upplýsa alla viðkomandi og þá ekki síst um framkvæmdina. Þ.e.a.s. hvenær verður féð tekið, hvernig verður staðið að því og hvernig fargað. Endurskoða þarf hvernig upphæð bóta er ákveðin. Það er ómögulegt að styðjast við heildarmeðaltöl í samningum, breyta þarf reglum þannig að stuðst sé við búsmeðaltal. Samningar eiga að tryggja framfærslu og möguleg kaup á nýju fé eftir hreinsun. Fylgja þarf eftir nægjanlega tímalega að öll hreinsun sé yfirstaðin og út tekin þannig að bændur geti tekið fé sem fyrst sé vilji til þess. Samningsskilyrði eiga að vera skýr og aðgengileg en um leið sveigjanleg eftir ólíkum aðstæðum. Því enginn er eins.
Með öðrum orðum – stjórnvöld þurfa að yfirfara verklagið frá því sem nú er. Það þarf meiri stuðning í gegnum ferlið sem þarf að líta til þess manneskjulega um leið og þess efnahagslega og sóttvarna.