Categories
Fréttir

Húsnæðismál lögreglunnar á Suðurnesjum

Deila grein

17/09/2024

Húsnæðismál lögreglunnar á Suðurnesjum

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins húsnæðismál lögreglunnar á Suðurnesjum, en staða þess sé óviðunandi og að embættið sé annað stærsta embætti landsins og hafi vaxið gríðarlega á undanförnum árum.

„Ég velti fyrir mér hvernig það má vera að ekkert plan liggi fyrir um varanlegt húsnæði heldur sé unnið að þarfagreiningu og bráðabirgðalausnum. Embættið mun ekki gera annað en að vaxa. Svona vinnubrögð eru óboðleg í mínum huga,“ sagði Jóhann Friðrik.

Lögreglufélag Suðurnesja skoraði í yfirlýsingu á Framkvæmdasýsluna og stjórnvöld í vor um úrbætur: „Útkallsliðið deilir nú húsnæði með rannsóknardeild, lögfræðisviði og yfirstjórn sem væri undir eðlilegum kringumstæðum besta staðan ef það húsnæði væri ekki skrifstofurými sem er ætlað rúmlega 40 starfsmönnum en hýsir nú tæplega 70 manns á dagvinnutíma.“

„Í fjármálaáætlun sem við samþykktum í vor ávarpaði meiri hluti fjárlaganefndar nauðsyn þess að setja húsnæðismál embættisins í forgang. Hæstv. dómsmálaráðherra þarf að gera það sem í hennar valdi stendur til að fyrir liggi plan um varanlegt húsnæði sem allra fyrst og hraða vinnu við bráðabirgðaaðstöðu fyrir sunnan. Ég hef áhyggjur af því að óboðleg vinnuaðstaða ofan á aukið álag geri það að verkum að lögreglumenn á Suðurnesjum leiti einfaldlega í önnur störf eða til annarra embætta. Við megum ekki missa frá okkur hæft fólk. Því hvet ég ráðherra til dáða í þessu máli og heiti að sjálfsögðu mínum stuðningi. Tímasetning á nýrri lögreglustöð á Suðurnesjum verður að líta dagsins ljós í haust,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi: