„Hæstv. forseti. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn ákveðið að setja á fót aðgerðahóp sem gera á tillögur um samræmdar aðgerðir á sviði húsnæðismála og er það vel. Eins og mörgum er kunnugt fór síðasta ríkisstjórn, undir forystu Framsóknarflokksins, í umfangsmiklar aðgerðir í húsnæðismálum og í þeirri vinnu var m.a. mikið rætt um sérstakar húsnæðisbætur og húsnæðisbætur til námsmanna á aldrinum 15–17 ára sem búa á heimavist eða á viðurkenndum námsgörðum. Í framhaldi af þeirri vinnu var þverpólitísk sátt héðan frá hv. Alþingi um það, meðal allra nefndarmanna í hv. velferðarnefnd, að frá og með síðustu áramótum væri öllum sveitarfélögum skylt að veita þennan stuðning.
Leiðbeinandi reglur voru settar um þennan stuðning en þær eru eftirfarandi: Að sveitarfélög skuli veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur og að sveitarfélög skuli veita foreldrum eða forsjáraðilum 15–17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum, vegna náms fjarri lögheimili, húsnæðisstuðning. Sá stuðningur skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjármanna og ekki yfir 75% af húsnæðiskostnaði vegna leigunnar. Auk þessa þarf að meta þunga framfærslubyrði einstaklinga sem sækja um sérstakan húsnæðisstuðning og líta til félagslegra aðstæðna. Markmið þessara laga, um almennan húsnæðisstuðning, og þessara reglna, sem ég vitna hér í, voru að enginn kæmi verr út úr nýja kerfinu en því gamla.
Hins vegar er það svo að við, mörg hver, hv. þingmenn, höfum fengið upplýsingar um að fjöldi einstaklinga fær ekki þennan sérstaka húsnæðisstuðning. Ég hef nú þegar kallað eftir fundi í hv. velferðarnefnd Alþingis til að ræða þessi mál og óskað eftir því að aðilar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar og velferðarráðuneytis mæti á fund nefndarinnar.
Ég skora jafnframt á hæstv. félagsmálaráðherra að beita sér fyrir þessum málum í þeim aðgerðum sem unnið er að í húsnæðismálum þessa dagana. Það er einstaklega mikilvægt að kanna hvort eina leiðin til að þessi sérstaki húsnæðisstuðningur virki eins og hann á að gera sé jafnvel að lögfesta hann. Til þessa verkefnis voru 800 milljónir skildar eftir hjá sveitarfélögunum svo að þau gætu sinnt því.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 28. febrúar 2017.
Categories
Húsnæðisstuðningur barna 15-17 ára skilar sér ekki
28/02/2017
Húsnæðisstuðningur barna 15-17 ára skilar sér ekki