Categories
Fréttir

„Hver er rétta talan?“

Deila grein

21/10/2025

„Hver er rétta talan?“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, kallaði eftir skýrari svörum frá ríkisstjórninni, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi, um „mjög misvísandi upplýsingar“ um mögulegan kostnað ríkissjóðs og tengdra fyrirtækja vegna falls flugfélagsins Play. Hann krafðist þess að fjármálaráðherra legði þegar fram eina, heildstæða tölu og útskýrði hvernig hún skiptist.

Sigurður Ingi vísaði til þriggja mismunandi fjárhæðna sem hafi verið nefndar á fáum dögum: „Fjármálaráðherra sagði […] að það væri trúlega um nokkur hundruð milljónir að ræða. Nokkrum dögum síðar kom hæstv. innviðaráðherra og taldi að kostnaðurinn væri 1,5 milljarðar. Síðan fréttist af minnisblaði fjármálaráðuneytisins þar sem talað var um 5 milljarða.“ Sigurður Ingi sagði þennan breytileika óásættanlegan og spurði: „Hver er rétta talan, ef einhver veit hana?“

Spyr um áhrif á stöðugleikareglu og Isavia

Jafnframt vildi Sigurður Ingi fá staðfest hvort mögulegt tjón hefði áhrif á svonefnda stöðugleikareglu ríkisfjármála. „Ef það eru 5 milljarðar er þá stöðugleikareglan í uppnámi?“ spurði hann og minnti á að „ríkisstjórnin hafi skilið um 500 milljónir eftir“ í ramma.

Mikilvægt væri að greina hvað félli á A-hluta ríkissjóðs og hvað á Isavia, sem starfar utan A-hlutans: „Ef þetta er vegna þess að kostnaðurinn falli á Isavia […] hver er þá kostnaður Isavia vegna þessa?“ bætti hann við.

Vaxandi tekjurýrnun vegna verkfalls

Í sömu andrá tengdi hann málið yfirvofandi tekjurýrnun hjá Isavia vegna verkfalls flugumferðarstjóra og áhrif þess á ferðaþjónustu og þjóðarbúið. „Er þá orðin hætta á því að lánalínur Isavia, sem er í miklum framkvæmdum, séu í uppnámi? Er hætta á innköllun á lánalínum eða […] að hér þurfi á að halda auknu eigin fé úr ríkissjóði til Isavia, til þess að Isavia geti haldið áfram sínum dampi?“ spurði hann.

Kallar eftir „heiðarlegum og réttum svörum“

Sigurður Ingi sagði brýnt að Alþingi fengi „heiðarlegri og rétt svör“ frá ríkisstjórninni og að ekki skeikaði „nokkru hundruð milljónum upp í 5 milljarða“. Hann lagði áherslu á að ráðherrar samræmdu tölur og settu fram sundurliðaða mynd af mögulegu tjóni og skuldbindingum ríkisins og dótturfyrirtækja þess.