Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, beindi fyrirspurn til forsætisráðherra á Alþingi vegna verulegs tjóns sem bændur urðu fyrir á síðasta ári, einkum vegna kals í túnum og erfiðra skilyrða í grænmetis- og kartöfluræktun.
Tjón bænda metið allt að 1,5 milljörðum
Í máli Sigurðar Inga kom fram að tjónið hjá ræktendum væri metið á milli 1,3 og 1,5 milljarða króna. Hann benti jafnframt á að slíkur stuðningur væri ekki hluti af hinu almenna stuðningskerfi landbúnaðarins og því væri staðan sérlega erfið fyrir bændur sem nú þyrftu að fjárfesta í útsæði, fræi og áburði fyrir komandi ræktunarár.
„Ég sá að eðlilegar landgræðslubætur og tjónabætur vegna ágangs álfta og gæsa voru greiddar út 12. febrúar, eða það var alla vega frétt um það úr Stjórnarráðinu, en hérna er um að ræða annars konar mál sem kemur sem betur fer ekki upp nema endrum og eins.“
Stuðningskerfi bændum ekki nægilegt
Sigurður Ingi sagði ríkisstjórnina á hverjum tíma oft hafa tekið slík mál til umfjöllunar þegar þau kæmu upp.
Sigurður Ingi spurði forsætisráðherra hvort núverandi ríkisstjórn hefði fjallað um málið og hvaða aðgerðir væru fyrirhugaðar. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að brugðist yrði við tjóninu með hraði, enda væri staða bænda orðin afar bágborin þegar kæmi að undirbúningi næsta ræktunartímabils.
Forsætisráðherra vill styrkja tryggingakerfi bænda
Forsætisráðherra svaraði því til að hún væri meðvituð um alvarlega stöðu bænda og nefndi að því miður væru engar tryggingar sem gætu gripið þennan hóp. Hún staðfesti að atvinnuvegaráðherra væri með málið til skoðunar, meðal annars með tilliti til hugsanlegs fjárauka. Hún lagði jafnframt áherslu á nauðsyn þess að koma á tryggingakerfi fyrir bændur til framtíðar, þar sem slíkar aðstæður gætu reglulega komið upp.
Notið varasjóðinn
Sigurður Ingi brást við svari forsætisráðherra með því að túlka svar hennar á jákvæðan hátt en sagði jafnframt óþarft að skjóta á fyrri ríkisstjórn fyrir að hafa ekki gert ráð fyrir slíkum atburðum í fjárlögum. Hann benti á að varasjóður væri einmitt ætlaður til að bregðast við ófyrirséðum aðstæðum og að ríkisstjórnin ætti nú að nota hann til að koma bændum til hjálpar.