Menntaþing var haldið á mánudag þar sem næstu aðgerðir í menntastefnu til ársins 2030 voru kynntar.
„Ástæðan fyrir því að við erum hér er að til þess að ná utan um unga fólkið okkar, og hvernig við getum stuðlað að því að það nái árangri í námi, hvernig við tryggjum farsæld þess, vegna þess að þau eru þau sem ætla að byggja landið okkar,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í opnunarávarpi sínu á Menntaþingi í morgun.
Ásmundur fór yfir ýmsa tölfræði sem liggur fyrir hjá ráðuneytinu, til að mynda PISA og norrænu rannsóknina QUINT, kennaraskort í grunnskólum, brotthvarf úr framhaldsskóla og stöðutöku nemenda og kennara með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn.
Helstu atriði:
- Íslensk skólabörn fengu færri stig í niðurstöðum PISA-könnunar 2022 en meðaltal OECD-ríkjanna er. Mæld eru náttúruvísindi, lesskilningur og stærðfræði meðal grunnskólanemenda. Grunnhæfni er lægri.
- Frá 2008 til 2023 hækkaði hlutfall barna með erlendan bakgrunn í leikskólum úr 19 í 27 prósent og úr 16 í 29 prósent í grunnskólum.
- Hlutfall ófaglærðra við kennslu er hátt og hlutfall fyrstu kynslóðar innflytjenda sem starfar í leikskólum 2016 til 2022 hefur hækkað. 2016 var það mest 43 prósent en árið 2022 var það orðið 88 prósent.
- Ráðherra nefndi líka að kennarar skili sér síður í kennslu eftir nám eða hverfi oftar frá kennslu í aðra vinnu. Þeir hafa hins vegar fyllt stækkandi hóp deildarstjóra og millistjórnenda í skólum. Frá 2016 til 2023 hefur stöðugildum deildarstjóra í grunnskólum fjölgað um 95 prósent en á sama tíma fjölgaði nemendum um tæp 7 prósent.
„Við sjáum að fleiri börnum gengur verr í námi. Við vitum að það skortir kennara og fagfólk, sjáum að börnum sem þurfa umfangsmeiri stuðning í skóla hefur fjölgað og á sama tíma eru vísbendingar um að uppruni og félagslegar aðstæður séu að hafa meiri áhrif á námsárangur og tækifæri þeirra í námi.“
Opnunarávarp ungmenna á Menntaþingi
Á þinginu var rætt um stöðu menntakerfisins, hvað verið er að gera og næstu skref í menntaumbótum. Fyrirhugaðar aðgerðir voru kynntar fyrir fullum sal á Hilton Reykjavík Nordica.
Fagmennska, kennaramenntun, virðing og samvinna stóðu upp úr í könnun meðal þinggesta um hvað sé mikilvægast til að efla menntakerfið.
Að lokinni kynningu á fyrirhuguðum aðgerðum komu fram sjónarmið ungmenna, foreldra, kennara, fræðafólks, sveitarfélaga og atvinnulífsins. Í kjölfarið hófst hópvinna um aðgerðirnar.
Hópvinna á Menntaþingi
Áhugasamir sem ekki sáu sér fært að taka þátt eru hvattir til að kynna sér upptökuna og koma tillögum og áherslum á framfæri hér að neðan fyrir 10. október:
Eftir að unnið hefur verið úr niðurstöðum þingsins verður önnur aðgerðaáætlun kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda.