Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, gagnrýndi skort á raunhæfu fjarnámsframboði hjá Háskóla Íslands og spurði hvort ríkið hygðist tryggja jafnt aðgengi að námi óháð búsetu. Hún krafðist skýrra svara um lagabreytingar og eyrnamerkingu fjármuna til dreifðari byggða.
„Það er ekki í boði, þetta er svar sem fólk af landsbyggðinni fær þegar það er að sækjast eftir því að komast í fjarnám á ólíkum námsbrautum. Þetta er eitt af því sem var rætt á byggðaþingi ungs fólks á Höfn í Hornafirði nú fyrr í vikunni,“ sagði Halla Hrund og krafðist þess að fjarnám yrði gert að raunveruleika „á öllum námsbrautum, eða þar sem það er hægt, sem er langstærsti hlutinn“.
Halla Hrund vísaði til þess að tæknin væri ekki hindrun eftir faraldur. „Ég hef sjálf kennt úr sama sæti heiman að. Maður getur einfaldlega nýtt tæknina til að streyma kennslu og það á við um nánast allt nám. Hitt er fyrirsláttur,“ sagði Halla Hrund og spurði berum orðum hvort ráðherra hygðist breyta lögum um opinbera háskóla til að tryggja jafnræði í aðgengi og eyrnamerkja hluta fjármuna, m.a. í gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna, til dreifðari byggða.
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra sagði skilning til staðar á vandanum og nefndi að vinna væri hafin við gerð háskólastefnu í samvinnu við háskólana og rektora. Hann benti á að sjö háskólar störfuðu í landinu, sumir með mikið fjarnám, og að HÍ ynni að samstarfi, m.a. við Hólaskóla og á Austurlandi. Um afdráttarlausar aðgerðir lét ráðherra þó lítið uppi.
„Við höfum ekki tíma og þessi samfélög sem við erum að tala um stóran hluta landsins okkar, fólk alls staðar að, hafa ekki tíma til að bíða eftir nýrri stefnu. Tæknin er til staðar,“ sagði Halla Hrund.