Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti máls á jöfnun raforkukostnaðar í störfum þingsins. Eins og allir vita eru í landinu eru tvær gjaldskrár vegna dreifingar rafmagns, dreifbýlisverð og þéttbýlisverð. Staðreyndin er sú að íbúar og og fyrirtæki í dreifbýli borga umtalsvert meira fyrir dreifingu raforku en þéttbýlisbúar.
„Ríkisstjórnin hefur gert vel í að jafna dreifikostnaðinn undanfarin misseri en samt sem áður er innbyggð óvissa í fyrirkomulagið eins og það er. Bæði almenna jöfnunin og samningar við garðyrkjubændur byggja á skiptingu á ákveðinni fjárveitingu milli þeirra sem njóta jöfnunarinnar. Þannig er enginn hvati til að fjölga notendum í dreifbýli – má raunar segja að þverrt á móti sé skammtíma hvati til að fækka notendum,“ sagði Líneik Anna.
Líneik Anna bendir á að það yrði allra hagur að horfa á heildarmyndina og til lengri tíma væri það hagur allra að fjölga notendum í dreifbýlinu. Kostnaðurinn myndi lækka vegna dreifingar á fleiri notendur og um leið þörfina fyrir jöfnunargreiðslur úr ríkissjóði.
„Stjórnvöld verða því að halda áfram að leita betri og fyrirsjáanlegri lausna við jöfnun dreifikostnaðar raforku, hvort sem er til almennra notenda eða í stuðningi við orkufreka framleiðslu eins og garðyrkju. Í því sambandi er rétt að rifja upp að samkvæmt stjórnarsáttmála er ætlunin að auka grænmetisframleiðslu með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar,“ sagði Líneik Anna.
„Dreifikerfi í jörð, þrífösun rafmagns og fyrirsjáanleiki í dreifikostnaðar raforku eru brýnustu hagsmunamálin fyrir fyrirtækin sem staðsett eru í dreifbýlinu jafnt fyrirtæki í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og á öðrum sviðum.
Nýsköpun, orkuskipti, nýliðun og öll framtíð dreifðra byggða er háð því að orka fáist, hún sé afhent á öruggan hátt og á samkeppnishæfu verði,“ sagði Líneik Anna að lokum.
Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Að lokinni vel heppnaðri kjördæmaviku er kominn tími á eina af mínum reglulegu ræðum um jöfnun raforkukostnaðar.
Í landinu eru tvær gjaldskrár vegna dreifingar rafmagns, dreifbýlisverð og þéttbýlisverð. Íbúar og fyrirtæki í dreifbýli borga umtalsvert meira fyrir dreifingu raforku en þéttbýlisbúar.
Ríkisstjórnin hefur gert vel í að jafna dreifikostnaðinn undanfarin misseri en samt sem áður er innbyggð óvissa í fyrirkomulagið eins og það er. Bæði almenna jöfnunin og samningar við garðyrkjubændur byggja á skiptingu á ákveðinni fjárveitingu milli þeirra sem njóta jöfnunarinnar. Þannig er enginn hvati til að fjölga notendum í dreifbýli – má raunar segja að þverrt á móti sé skammtíma hvati til að fækka notendum. Ef aftur á móti væri litið á heildarmyndina og til langtíma sjónarmiða væri það allra hagur að fjölga notendum í dreifbýli því þá skiptist dreifikostnaðurinn á fleiri notendur, verðið gæti lækkað og um leið þörfin fyrir jöfnunargreiðslur úr ríkissjóði.
Stjórnvöld verða því að halda áfram að leita betri og fyrirsjáanlegri lausna við jöfnun dreifikostnaðar raforku, hvort sem er til almennra notenda eða í stuðningi við orkufreka framleiðslu eins og garðyrkju. Í því sambandi er rétt að rifja upp að samkvæmt stjórnarsáttmála er ætlunin að auka grænmetisframleiðslu með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar.
Dreifikerfi í jörð, þrífösun rafmagns og fyrirsjáanleiki í dreifikostnaði raforku eru brýnustu hagsmunamálin fyrir fyrirtækin sem staðsett eru í dreifbýlinu jafnt fyrirtæki í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og á öðrum sviðum.
Nýsköpun, orkuskipti, nýliðun og öll framtíð dreifðra byggða er háð því að orka fáist, hún sé afhent á öruggan hátt og á samkeppnishæfu verði.“