Categories
Fréttir

Íbúar um land allt kalla eftir úrbótum í samgöngumálum

Deila grein

26/08/2016

Íbúar um land allt kalla eftir úrbótum í samgöngumálum

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Í gær birti Fréttablaðið viðtal við ungan ferðaþjónustubónda, Svavar Eysteinsson, sem flutti fyrir tveimur árum með fjölskyldu sína til Berufjarðar og hóf þar matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu. Ungi bóndinn lýsir reynslu sinni í viðtalinu og fer yfir hversu hamlandi umrædd vöntun á þriggja fasa rafmagni er fyrir atvinnuuppbyggingu sem og vöntun á góðu netsambandi.

Þessi staðreynd kemur mörgum á óvart. Menn sitja alls ekki við sama borð hvað varðar aðgang að því sem mörg okkar telja sjálfsagða innviði. Samgöngumál á landsbyggðinni eru víða í ólestri, of litlu fé hefur verið varið til viðhalds vega síðustu ár og nýframkvæmdir mæta afgangi. Vík er þorp með 500 íbúa en þar fer mikill straumur ferðamanna um. Þjóðvegurinn liggur í gegnum þorpið og aðeins 3–5 metrar eru á köflum frá vegi að næsta íbúðarhúsi. Umferðin í gegnum þorpið skapar gríðarlega slysahættu þar sem börn þurfa að fara yfir þjóðveginn daglega til að komast í skóla.

Hæstv. forseti. Til að gefa fólki hugmynd um umferðarþungann í gegnum þorpið fóru t.d. 3.200 bílar um Reynisfjall þann 22. ágúst sl. og á sama tíma um 1.700 bílar yfir Holtavörðuheiði. Á þessu ári varð banaslys á Gatnabrún á Reynisfjalli en Gatnabrún er mikil slysagildra. Íbúar í Mýrdalnum eru samstiga og kalla eftir úrbótum í samgöngumálum, krafa þeirra er göng í gegnum Reynisfjall. Sú framkvæmd mundi bæta umferðaröryggi verulega.

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða einbreiðar brýr að þessu sinni en útrýming þeirra er einnig mikilvægt umferðaröryggismál. Íbúar um land allt kalla eftir úrbótum í samgöngumálum. Við vitum ekki enn hver næstu skref verða í þeim efnum af hálfu stjórnvalda. Því er nauðsynlegt að við fáum á yfirstandandi þingi að sjá samgönguáætlun til næstu fjögurra ára sem og næstu 12 ára.“

Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 23. ágúst 2016.