Categories
Fréttir

Ingibjörg kallar eftir endurskoðun VSK-laga vegna fjáröflunar björgunarsveita

Deila grein

10/11/2025

Ingibjörg kallar eftir endurskoðun VSK-laga vegna fjáröflunar björgunarsveita

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, hvatti á Alþingi til endurskoðunar á lögum um virðisaukaskatt þannig að starfsemi viðurkenndra heildarsamtaka björgunarsveita, á borð við Slysavarnafélag Landsbjargar, falli ekki lengur undir skattskyldu. Ingibjörg sagði björgunarsveitirnar vera „burðarás í öryggiskerfi þjóðarinnar“ og benti á að rekstur þeirra byggðist alfarið á gjöfum, styrkjum og sjálfboðaliðavinnu.

Ingibjörg minnti á að um land allt starfi 93 björgunarsveitir með rúmlega 3.500 sjálfboðaliðum sem haldi úti þjónustu allan sólarhringinn, árið um kring. Þrátt fyrir það renni umtalsverður hluti af tekjum sem safnast í fjáröflunum til ríkissjóðs í gegnum skatta og gjöld. „Af þeim fjármunum sem sjálfboðaliðar safna til að tryggja öryggi okkar landsmanna rennur fimmtungur í ríkissjóð í stað þess að nýtast óskert til björgunar- og öryggisstarfa,“ sagði hún og vísaði þar sérstaklega til flugeldasölu björgunarsveita.

Ingibjörg nefndi að flugeldasalan væri stærsta einstaka fjáröflun björgunarsveitanna og skilaði allt að 60-70% af sjálfsafla sveitanna; hjá sumum sveitum gæti hlutfallið orðið allt að 90%. Allt þetta starf væri unnið af sjálfboðaliðum án launakostnaðar. Þá minnti hún á árlega sölu Neyðarkallsins, þar sem undanþága frá virðisaukaskatti gildi aðeins í fimm daga. Að þeim tíma loknum þurfi að greiða virðisaukaskatt af seldum Neyðarköllum.

„Í því ljósi vil ég spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann sé reiðubúinn til að láta fara fram endurskoðun laga um virðisaukaskatt varðandi starfsemi viðurkenndra heildarsamtaka björgunarsveita,“ sagði Ingibjörg og lagði áherslu á að fjármunir sem safnast í þágu öryggis og almannavarna nýtist sem mest óskertir.

Í ræðunni minntist hún einnig á Neyðarkall ársins sem er helgað minningu Sigurðar Kristófers, sjálfboðaliða sem lést í slysi við björgunaræfingu í Tungufljóti í fyrra. Hún hvatti almenning til að sýna stuðning í verki með þátttöku í söfnunum björgunarsveita.