Categories
Fréttir

Innleiðing lýðheilsumats í íslenska löggjöf

Deila grein

27/09/2024

Innleiðing lýðheilsumats í íslenska löggjöf

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf. Markmið tillögunnar er að fest verði í sessi lýðheilsumat hér á landi og lýðheilsa þannig gerð að föstum hluta stjórnsýslunnar.

Lýðheilsumat er í senn áhrifarík og einföld aðgerð þar sem hægt er að leggja mat á bein og óbein áhrif stjórnsýsluákvarðana og lagasetningar á lýðheilsu. Lífslíkur landsmanna hafa aukist verulega á síðustu áratugum og er aldurssamsetning þjóðarinnar að taka breytingum. Sífellt færri verða á vinnufærum aldri á bak við hvern 65 ára og eldri. Samhliða eykst byrði langvinnra sjúkdóma og ýmsar áskoranir eru fyrirliggjandi, m.a. vegna loftslagsbreytinga. Ef ekki er brugðist við þessari stöðu með markvissum hætti er ljóst að áhrif á kostnað og þjónustuþörf í heilbrigðiskerfinu sem og öðrum kerfum aukast verulega og áhrif heilsuleysis leiða af sér verulega neikvæð áhrif á samfélagið í heild. Flutningsmenn telja því mikilvægt að innleiða lýðheilsumat til þess að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna þessa.

Tillögugreinin orðast svo:
„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að ljúka vinnu við að festa í sessi lýðheilsumat hér á landi. Sérfræðihópur verði skipaður með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags, sveitarfélaga og embættis landlæknis er leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar. Hópurinn skal skila stöðuskýrslu sem kynnt verði Alþingi eigi síðar en 1. maí 2025.“

Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi: