Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður, ræddi Schengen-samstarfið í umræðum á Alþingi á dögunum. „Ísland hóf þátttöku í Schengen-samstarfinu þann 25. mars árið 2001, fyrir 18 árum. Mikil fjölgun ferðamanna hefur orðið til og frá landinu á þeim tíma, auk mikilla breytinga á komu flóttafólks og hælisleitenda til landsins. Þótt dregið hafi úr ferðamannastraumnum undanfarið, eða hann a.m.k. ekki aukist, er ljóst að verkefnin fram undan eru krefjandi ef við ætlum að uppfylla þær kröfur sem til okkar eru gerðar. Einnig tölum við mikið um á hinu háa Alþingi að fjölga gáttum inn í landið og dreifa ferðamönnum betur um landið, að þeir komi víðar við. Það kallar á enn frekari aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að tryggja eftirlit og öryggi við landamæravörslu óháð þróun Schengen-samstarfsins,“ sagði Ásgerður.
Schengen-samstarfið felur í grundvallaratriðum í tvennu, annars vegar afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-ríkja og hins vegar mótvægisaðgerðum, sem felast einkum í samræmdum reglum um eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og samvinnu lögregluliða meðal þátttökuríkjanna, þar á meðal rekstri Schengen-upplýsingakerfisins, til að tryggja öryggi borgara á Schengen-svæðinu.
Ræða Ásgerðar K. Gylfadóttur á Alþingi 5. mars 2019:
„Það er nokkuð ljóst að fámenn eyja eins og Ísland nýtur á margan hátt góðs af því að vera í alþjóðasamstarfi eins og Schengen,“ sagði Ásgerður.
„Skýrslan er mjög greinargóð og gefur góða mynd af þeim verkefnum og áskorunum sem felast í samstarfinu. Segja má að kostir og gallar samstarfsins kristallist í sama atriðinu, eins og hefur komið fram í ræðum annarra þingmanna, þ.e. frjálsri för fólks innan svæðisins þar sem almennir ferðamenn njóta þess að sæta ekki landamæraeftirliti við hver og ein landamæri þátttökuríkjanna, en á sama tíma má segja að skipulagðir glæpahópar hafi stærra aðgerðasvæði, geti aukið umsvif sín og stundað afbrot yfir landamæri.“
Categories
Ísland nýtur góðs af alþjóðasamstarfi eins og Schengen
18/03/2019
Ísland nýtur góðs af alþjóðasamstarfi eins og Schengen