„Á síðustu vikum hafa orðið umtalsverðar framfarir í þekkingu og hæfni fólks við notkun fjarfunda og í fjarvinnu hvers konar víðast hvar í samfélaginu, líka hér á þingi. Í framhaldinu þarf að taka meðvitaða ákvörðun um að viðhalda og auka enn frekar færni í notkun fjarvinnu og nota sveigjanlegt vinnufyrirkomulag þar sem það á við. Bæði þarf að viðhalda og auka tæknilega þekkingu og færni, en einnig þarf að þjálfa ýmsa hæfni sem nýtist í fjarvinnu,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í gær.
En það er ekki nóg!
Líneik Anna minnti á að lög og reglur megi ekki vera hindra í þessari samfélagsþrónu, því þær fylgi ekki með. Reglur á vinnumarkaði og reglur hins opinbera verða að tryggja enn frekari fjarvinnu og fjarvinnslu fólks.
„Það þarf líka að tryggja að reglur á vinnumarkaði og opinber kerfi, lög og reglur, verði ekki hindrun í þróuninni. Það er að mörgu að hyggja þegar fjarlægðir hætta að vera hindrun og fólk býr t.d. í öðru landi en því sem það starfar í. Þá geta komið upp spurningar eins og: Hvar greiðir sá skatt sem vinnur þvert á landamæri? Hvernig og hvar öðlast hann rétt til opinberrar þjónustu? Hvernig verður vinnumarkaðsréttindum hans háttað, t.d. varðandi fæðingarorlof, atvinnuleysisbætur og aðgang að símenntun?
Fjórða iðnbyltingin, rafræn stjórnsýsla, fjarvinna og fjarnám, gefa okkur frábær verkfæri og tækifæri. Til að nýta þau tækifæri þurfum við að setja af stað formlega vinnu til að tryggja að búseta á Íslandi verði valkostur fyrir fólk sem vill eiga kost á störfum hvar sem er í heiminum, óháð búsetu,“ sagði Líneik Anna.
„Innan lands getum við líka oftar spurt okkur hvernig hægt sé að nýta tækifærin í fjarvinnunni til þess að styrkja starfsemi þar sem ekki er þörf á fjölda fólks í nærþjónustu. Nærþjónusta er samt mikilvæg en skapar t.d. ekki fullt starf. Þar mætti með meðvitaðri stýringu nota rafræna stjórnsýslu og fjarvinnslu til að dreifa störfum um landið, efla starfsstöðvar og heilu stofnanirnar, kerfin eða keðjurnar,“ sagði Líneik Anna að lokum.