Félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, og jafnréttisráð buðu til jafnréttisþings síðastliðinn föstudag. Jafnréttisþingið var jafnframt lokaviðburður jafnréttisviku sem hófst á kvennafrídaginn, 24. október sl.
Hlutverk jafnréttisþingsins var að að efna til samræðu milli stjórnvalda og þjóðar um málefni kynjajafnréttis og gefa öllum áhugasömum kost á að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum. Fjallað var um fjölmargar hliðar jafnréttismála en megináhersla þingsins var að þessu sinni á jafnrétti á vinnumarkaði.
Fanný Gunnarsdóttir, formaður jafnréttisráðs, setti þingið og hófst dagskráin með ávarpi Eyglóar Harðardóttur sem fylgdi úr hlaði skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála árin 2011-2013.
Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals ÍST 85:2012 var einnig kynnt á þinginu af Önnu Kolbrúnu Árnadóttur formanns aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi og komu fyrst hugmyndir fram um jafnlaunavottun árið 2005 í tíð Árna Magnússonar félagsmálaráðherra.
Fjölmargar málstofur voru haldnar á þinginu ásamt fyrirlestrum og pallborðsumræðum og endurspeglaðist efnisval framsögumanna í áherslum þingsins um á jafnrétti á vinnumarkaði.
Ísland skipar nú fimmta árið í röð efsta sæti lista Alþjóðaefnahagsráðsins á sviði kynjajafnréttis sem staðfestir þann góða árangur sem náðst hefur á sviði jafnréttismála á síðustu árum. Þótt enn sé nokkuð í land svo jafnri stöðu og jöfnum áhrifum kvenna og karla verði að fullu náð ber að halda því til haga sem vel er gert og hefur borið góðan árangur. Í skýrslu ráðherra er til að mynda fjallað um áhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof frá því þau tóku gildi í ársbyrjun 2001. Þrátt fyrir að breytingar hafi orðið á töku fæðingarorlofs í kjölfar efnhagsþrenginganna er ljóst er að enn tekur mikill meirihluti nýbakaðra mæðra og feðra á innlendum vinnumarkaði fæðingarorlof. Ennfremur sýna nýjar rannsóknir að hlutdeild feðra í umönnun barna hefur aukist verulega frá því að lögin tóku gildi en sú staðreynd verður að teljast til jákvæðra áhrifa laganna.
Eftir tvö ár verða 100 ár liðin frá því að íslenskar konur, 40 ára eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þessi tímamót verða nýtt til að beina sjónum að þeim verkefnum sem miða að því að auka kynjajafnrétti á sviðum þar sem enn hallar á annað kynið. Alþjóðlega fjármálakreppan, íslenska bankahrunið og efnahagsþrengingar sem fylgdu í kjölfarið hafa haft margræð áhrif á stöðu kvenna og karla og þróun jafnréttismála. Færa má rök fyrir því að jafnari þátttaka kynja í stjórnmálum, opinberri stjórnsýslu og í nefndum, stjórnum og ráðum hafi að einhverju leyti verið afleiðing þess að kallað var eftir breytingum í kjölfar efnahagsþrenginganna. Konur eru nú um 40% kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu og á Alþingi. Hlutfall kvenna er nú sambærilegt því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Þá hefur hlutur kvenna í stjórn atvinnulífsins aukist eftir að ákvæði um hlutfall kynja í stjórnun hlutafélaga var sett í í lög og áhrifa þeirra fór að gæta.
Í lok þingsins kom fram í máli Kristínar Ástgeirsdóttur, framkvæmdastýru jafnréttisstofu, að brýnast væri að fræða ungt fólk og börn um jafnréttismál og að skólarnir gengdu þar lykilhlutverki. Það væri áhyggjuefni að íhaldssamasta viðhorfið væri að finna hjá ungu fólki sem hugsanlega endurspeglast í því stöðuga áreiti sem það verður fyrir í formi efnis sem hamri mjög á íhaldssömum og hefðbundnum kynímyndum. Svo virðist sem meira sjáist af ákveðinni andstöðu við jafnrétti kynjanna og mikilvægt að stöðva þá óheillavænlegu þróun.
Jafnréttisþingið var vel sótt, rúmlega 300 þátttakendur sátu þingið.
Tenglar:
Skýrsla jafnréttisráðherra: https://www.velferdarraduneyti.is/media/Rit_2013/Jafnrettisskyrsla_2013.pdf
Jafnréttisþing 2013: https://www.velferdarraduneyti.is/jafnrettisthing2013