Categories
Fréttir

Jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér

Deila grein

08/03/2022

Jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér

„Á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars er tilefni til að fagna árangri í jafnréttismálum en um leið að benda á verk sem þarf að vinna.

Jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér, það er stöðug vinna að viðhalda árangri og berjast fyrir frekara jafnrétti.  Það er fjölbreytt samfélagslegt verkefni á heimsvísu og því miður er eru ekki einungis stigin framfaraskref stundum lendum við mörg skref til baka.

Stríðið í Úkraínu er eitt slíkt bakslag – það bitnar á venjulegu fólki og þar með á jafnrétti. Fjölskyldur sundrast, konur og börn verða illa úti. 

Það er því vel við hæfi að UN Women á Íslandi beinir sjónum að stöðu kvenna og stúlkna í Úkraínu í tilefni dagsins.

Hjá UN WOMEN er unnið að því alla daga ársins að tryggja réttindi kvenna og stúlkna um allan heim og þrýsta á aðildarríki SÞ taki mið af sáttmálum sem varða réttindi kvenna og stúlkna.

Stríði fylgja auknar líkur á kynbundnu ofbeldi, mansali og almennri neyð.

Það er því miður farnar að berast fréttir af því að líkamar kvenna séu orðnir vettvangur stríðsátaka í Úkraínu, eins og alla tíð hefur tíðkast í stríði.

Konur neyðast til að flýja heimili sín með ung börn, skilja eftir syni og maka.

Syni sem þær höfðu vonast eftir að fylgjast með vinna afrek í íþróttum, námi og starfi en ekki í hörmungunum sem fylgja stríði. Maka og bræður sem þær vita ekki hvort þær sjá aftur.

Stuðningur miðaður að þörfum kvenna er brýnn ekki síst til þeirra jaðarsettu.

Leggjum okkar á vogarskálarnar til að styðja úkraínskar konur og stuðlum að því að þær fái tækifæri til að vinna að friði.  Friður er grundvöllur jafnréttis.“

Líneik Anna Sævarsdóttir, í störfum þingsins á Alþingi 8. mars 2022.