Categories
Fréttir

Jómfrúarræða Höllu Hrundar á Alþingi: Setjum orkuöryggi almennings í forgang

Deila grein

12/02/2025

Jómfrúarræða Höllu Hrundar á Alþingi: Setjum orkuöryggi almennings í forgang

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, flutti í dag jómfrúarræðu sína í störfum þingsins á Alþingi. Sagði hún að í umræðu um orkumál verði að hafa í huga að staða mála geti breyst hratt. Fyrir áratug hafi álverið í Helguvík verið blásið af. Það hafi verið nægt „framboð af raforku á lágu verði og heimsfaraldurinn hjálpaði þar til því að hagkerfi heimsins drógust saman. Þetta gjörbreyttist hins vegar, eins og við þekkjum, á stuttum tíma eftir Covid. Bitcoin hækkaði í verði, álverð hækkaði í verði, landeldi kom inn á markaðinn og eftirspurn jókst hratt,“ sagði Halla Hrund.

„Hvað mun það þýða fyrir okkur hér á Íslandi, fyrir eftirspurn hér? Það er eitthvað sem við þingmenn þurfum að þekkja. Mig langar þó að brýna sérstaklega nýja ríkisstjórn til að setja orkuöryggi almennings í forgang og beini því sérstaklega til nýs ráðherra að hafa stórt samfélagshjarta í þessum málaflokki, setja áherslu á jarðhitaleit, fæðuöryggi og það að tengja saman dreifðari byggðir sem sannarlega þurfa á því að halda.“


Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Kæri þingheimur og kæra þjóð. Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum og ekki síst í orkumálunum sem þegar hafa orðið bitbein í þessum sal. Megi traust ríkja í nýtingu okkar fjölbreyttu og verðmætu auðlinda og ekki síður í náttúruvernd, orði sem ég hef saknað að sé nefnt með skýrum hætti hér í þingsal. Í áframhaldandi umræðu um orkumál þarf að hafa í huga að staða mála getur breyst hratt. Horfum áratug aftur í tímann. Þá var álverið í Helguvík blásið af, það var nægt framboð af raforku á lágu verði og heimsfaraldurinn hjálpaði þar til því að hagkerfi heimsins drógust saman. Þetta gjörbreyttist hins vegar, eins og við þekkjum, á stuttum tíma eftir Covid. Bitcoin hækkaði í verði, álverð hækkaði í verði, landeldi kom inn á markaðinn og eftirspurn jókst hratt. Við sáum líka eftirspurn aukast hratt vegna áskorana í Evrópu, orkukrísunnar og í ofanálag var fólksfjölgun hér á landi að aukast mikið. Samtímis var minna af orku í boði því að lón Landsvirkjunar voru sögulega lág, sem hefur reyndar breyst undanfarið með slagveðrinu sem hefur gengið yfir.

Ég segi þetta því að það hafa orðið miklar sviptingar bara á síðustu fimm árum og síðustu fimm ár eru eins og eitt kjörtímabil rúmlega í lengd. Þetta er því góð áminning um að ytri þættir geta breyst hratt sem hafa mikil áhrif á okkar orkumál. Bandaríkin og Evrópa tilkynntu t.d. nýlega um umfangsmiklar fjárfestingar í orkuinnviðum og gervigreind. Og ég spyr: Hvað mun það þýða fyrir okkur hér á Íslandi, fyrir eftirspurn hér? Það er eitthvað sem við þingmenn þurfum að þekkja. Mig langar þó að brýna sérstaklega nýja ríkisstjórn til að setja orkuöryggi almennings í forgang og beini því sérstaklega til nýs ráðherra að hafa stórt samfélagshjarta í þessum málaflokki, setja áherslu á jarðhitaleit, fæðuöryggi og það að tengja saman dreifðari byggðir sem sannarlega þurfa á því að halda. Um leið þarf að gæta að nýtni, nýsköpun og náttúruvernd sem mun reyna á með tilkomu vindorku. Sláum samvinnutón í orkumálum, vinnum þau faglega án upphrópana og ásakana því það er það sem Ísland á skilið.“