Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gagnrýndi í störfum þingsins sífellt skýrari stefnu stjórnvalda gagnvart landsbyggðinni. Hann sagði ríkisstjórnina hafa „komið hreint fram“ með afstöðu sína og taldi upp tíu atriði sem að veikja stoðir atvinnulífs og þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.
„Sú mynd sem er að teiknast upp gagnvart landsbyggðinni er að verða skýrari og skýrari með hverjum deginum,“ sagði Stefán Vagn og bætti við að afleiðingarnar næðu bæði til atvinnulífs og íbúa.
Tíu atriði sem Stefán Vagn nefndi:
- Hærra vöruverð og flutningskostnaður: Breytingar á kílómetragjaldi á vörubifreiðar hækki kostnað og verði til þess að vörur á landsbyggðinni verði dýrari.
- Áhrif á ferðaþjónustu: Hærra kílómetragjald á bílaleigur dragi úr lengri ferðum um landið, með minna tekjuflæði til landshluta utan höfuðborgar.
- Veiðigjöld: Hækkun veiðigjalda sé farin að skila sér í uppsögnum og minni fjárfestingargetu útgerða á landsbyggðinni.
- Vörugjöld á bensín- og dísilbíla: Hækkunin bitni sérstaklega á landsbyggðarfólki sem reiði sig frekar á slíka bíla, líkt og fram komi í áhrifamati frumvarps um kílómetragjald.
- Búvörulög: Boðaðar breytingar muni hafa veruleg áhrif á mjólkurbændur og umbylta tveggja áratuga kerfi sem hingað til hafi ríkt sátt um.
- Sameining sýslumanna: Fulltrúar ríkisins í héraði verði færðir burt, með mögulegri skerðingu á nálægri þjónustu.
- Breytingar á framhaldsskólum: Lagt sé til að leggja niður stöður skólameistara, færa vald til miðlægra stofnana og veikja fjárhagslegt sjálfstæði skólanna.
- Frumvarp um jöfnun atkvæða: Áhrif þess geta bitnað á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins.
- Sameining heilbrigðisfulltrúa: Samþjöppun eftirlits og þjónustu fjarri notendum á landsbyggðinni.
- Skert starfsemi Vinnumálastofnunar: Þjónusta stofnunarinnar verði rýrð á landsbyggðinni.
Auk þess nefndi hann að rekstur meðferðarheimila utan höfuðborgarsvæðisins væri orðinn erfiður „því að of langt er í þjónustu að mati ráðuneytisins“.
„Of langt er í þjónustu því að ríkið er að taka hana alla í burtu,“ sagði Stefán Vagn að lokum.
