Categories
Fréttir

Krafa um að knattspyrnuvellir verði endurnýjaðir og hættuminna efni notað

Deila grein

13/10/2015

Krafa um að knattspyrnuvellir verði endurnýjaðir og hættuminna efni notað

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér um gúmmíkurl úr afgangsdekkjum sem notað hefur verið á leik- og íþróttasvæði hérlendis, aðallega á knattspyrnuvelli. Skýrar reglur eru til staðar um meðhöndlun og förgun ónýtra hjólbarða en þegar búið er að kurla dekkin niður og dreifa þeim á íþróttasvæði barna og unglinga gilda engar reglur. Þó er ljóst að eiturefnin eiga mun greiðari leið út í umhverfið úr dekkjakurlinu en þegar þau eru bundin í heila hjólbarða.
Segja má að umræðan hafi byrjað um þetta mál fyrir alvöru fyrir fimm árum og í kjölfar þeirrar umræðu sendi Læknafélag Íslands frá sér einróma áskorun þess efnis að stjórnvöld bönnuðu notkun á gúmmíkurli sem inniheldur krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni á íþrótta- og leiksvæðum.
Einhverra hluta vegna náði umræðan þá og þessi áskorun Læknafélagsins ekki tilætluðum árangri. Þrátt fyrir vísbendingar um að kurlið geti mögulega valdið sjúkdómum, þá brugðumst við ekki við varnaðarorðum á þeim tíma. Málið er á borði fjölmargra aðila eins og sveitarfélaga, knattspyrnuyfirvalda og heilbrigðiseftirlits og Umhverfisstofnunar og auðvitað fjölmargra samtaka sem láta sig velferð og heilsu barna varða. Fjölmargar rannsóknir og skýrslur eru til um þetta efni og Norðmenn hafa rannsakað þetta þó nokkuð og bent á hættuna á umhverfisáhrifum af kurlinu á nærlendi gervigrasvalla.
Nú hafa Heimili og skóli, landssamtök foreldra, farið fram á það að slíkir vellir verði endurnýjaðir og hættuminna efni notað. Við verðum líkt og aðrar þjóðir að bregðast við og helst að banna þessa notkun og fara í þá vinnu að skipta dekkjakurlinu út fyrir hættuminni efni.
Ég hef nú leitað eftir stuðningi allra flokka og fengið jákvæð viðbrögð við þingsályktunartillögu þar sem hæstv. umhverfisráðherra verður falið að ganga í þetta mál.“
Willum Þór Þórssoní störfum þingsins 6. október 2015.