Categories
Fréttir

Kröftugur miðstjórnarfundur Framsóknar 

Deila grein

26/03/2025

Kröftugur miðstjórnarfundur Framsóknar 

Vorfundur miðstjórnar Framsóknar fór fram um síðustu helgi á Akureyri. Var fundurinn mjög vel heppnaður og kröftugur. Fram fóru mjög málefnalegar og góðar umræður, enda hefur grasrót Framsóknar á að skipa gríðarlega öflugu fólki.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, hélt yfirlitsræðu á fundinum og í henni lagði hann áherslu á mikilvægi þess að flokkurinn nýti nú tækifærið til að styrkja innra starf sitt og fara í öfluga sókn eftir að hafa farið í gegnum erfiða kosningabaráttu.

„Það er engin launung að úrslit síðustu kosninga voru okkur erfið. Mörg okkar upplifðum sorgarferli – Við megum hins vegar ekki láta það slá okkur út af laginu. Þvert á móti – í öllum aðstæðum eru fólgin tækifæri og við eigum nú að nýta tímann vel í uppbyggingarstarfinu,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi sagði að Framsókn hafi farið úr því að vera í vörn í ríkisstjórn í að vera komin í sókn í stjórnarandstöðu. Hann greindi frá því að hann hafi undanfarnar vikur átt samtöl við rúmlega 600 flokksmenn um allt land og að þau samtöl hafi gefið skýra mynd af því hvað þurfi að gera til að styrkja flokkinn.

„Í Framsókn eru rúmlega 12.000 félagsmenn og í því fólki eigum við mikinn auð. Ég vil efla starf Framsóknarflokksins í samstarfi við fólkið og við ætlum að hlusta á fólkið okkar. Þess vegna munum við leita til hins almenna flokksmanns um ráð og nýjar hugmyndir með því að spyrja hvað megi betur fara í flokksstarfinu, hvaða áherslur viljum við sjá og hvernig við getum gert starf okkar öflugra og aðgengilegra? Við munum vinna úr tillögum flokksfólks í framhaldinu og leggja fram til umræðu og afgreiðslu á næsta flokksþingi,“ sagði Sigurður Ingi.

Formaðurinn lýsti yfir að komið verði á fót „skuggaráðuneytum“ þar sem færustu sérfræðingar flokksins munu vinna með þingflokknum að stefnumótun og veita ríkisstjórninni aðhald. Þá tilkynnti hann að hrint verði af stað átaki í fjölgun styrktarmanna flokksins, sérstaklega með áherslu á samstarf við ungt framsóknarfólk.

Sigurður Ingi undirstrikaði að Framsókn sé áfram róttækur umbótaflokkur sem muni halda áfram að berjast fyrir bættum kjörum og betra samfélagi. Hann kallaði eftir markvissara samstarfi milli kjörinna fulltrúa flokksins á Alþingi og í sveitarstjórnum og greindi frá fyrirhugaðri sveitarstjórnarráðstefnu á næstunni sem verði liður í því starfi.

„Framsókn hefur lengi verið þekkt fyrir öflugt og skemmtilegt félagsstarf – það hefur verið sagt að fá partý séu eins skemmtileg og framsóknarteiti., en við getum alltaf bætt okkur. Það er mikilvægt að við aukum samvinnu á milli framsóknarfélaga um allt land og tryggjum að félagið sé ekki bara vettvangur fyrir pólitíska umræðu heldur líka samfélag fólks sem vill hafa áhrif, njóta góðrar samveru og vinna saman að framgangi sameiginlegra hagsmuna. Félagsstarfið okkar á að endurspegla nokkra lykilþætti: Góðar samverustundir, heiðarleg samskipti, upplýsta umræðu, skýra stefnumótun, skemmtanir og gróskumikið starf,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann lauk máli sínu með því að hvetja flokksmenn til samstöðu og þátttöku í uppbyggingarstarfi, enda sé Framsókn grasrótarflokkur þar sem styrkurinn liggi í fólkinu. „Við gerum þetta saman,“ sagði hann og lagði áherslu á að framtíð flokksins væri björt ef allir leggðu sitt af mörkum.

Kröftugur miðstjórnarfundur Framsóknar fór fram um helgina á Akureyri. Tæplega 200 manns mættu til stefnumótunar og…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Sunnudagur, 23. mars 2025