Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi aðgerðir stjórnvalda vegna læknisþjónustu á landsbyggðinni í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Sagði hún áhyggjur sínar snúa að mönnun og ekki síst í Suðurkjördæmi. „Við erum ekki bara að tala um íbúana á svæðinu heldur erum við að tala um að um 80% af ferðamönnum sem koma til Íslands fara um það kjördæmi. Við vitum öll að læknisþjónusta er forsenda góðra búsetuskilyrða. Hún er lykilþáttur í því hvort við ákveðum að flytja út á land. Hún er lykilþáttur í því að atvinnulíf geti blómstrað á ólíkum sviðum.“
„Ef við hugsum bara öll sem erum hér í þessum þingsal þá áttum við okkur á því að staðan var ekki alltaf svona. Förum aðeins og skoðum hvernig þetta var þegar héraðsskyldan var. Skoðum aðeins þegar læknabústaðirnir voru og hétu, þessir hvatar og skyldur sem voru til áður fyrr, og gerðu það að verkum að staðan var allt önnur en núna.
Ég beini því þessum spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvaða aðgerðapakka, hvaða hvata ætlið þið að fara í strax? Hvert er planið í þessum málum?“
Sjá nánar: Aðgerðir stjórnvalda vegna læknisþjónustu á landsbyggðinni.
Ræða Höllur Hrundar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Mig langar að fara yfir mál sem ég veit að hvílir á mörgum en það er læknisþjónusta á landsbyggðinni. Ég hef verulegar áhyggjur af því máli, ekki síst í Suðurkjördæmi þar sem við sjáum að það vantar upp á mönnun. Og ekki bara það. Við erum ekki bara að tala um íbúana á svæðinu heldur erum við að tala um að um 80% af ferðamönnum sem koma til Íslands fara um það kjördæmi. Við vitum öll að læknisþjónusta er forsenda góðra búsetuskilyrða. Hún er lykilþáttur í því hvort við ákveðum að flytja út á land. Hún er lykilþáttur í því að atvinnulíf geti blómstrað á ólíkum sviðum. Ég veit til þess að nýverið hafa komið til hæstv. heilbrigðisráðherra áskoranir frá ýmsum varðandi læknisþjónustu í Rangárvallasýslu. Við vitum að það er einn læknir á Höfn, það eru verktakar í Vík, það er enginn læknir á Kirkjubæjarklaustri, þannig að ástandið er alvarlegt. Það þarf ekkert að fara svo langt aftur í tímann. Ef við hugsum bara öll sem erum hér í þessum þingsal þá áttum við okkur á því að staðan var ekki alltaf svona. Förum aðeins og skoðum hvernig þetta var þegar héraðsskyldan var. Skoðum aðeins þegar læknabústaðirnir voru og hétu, þessir hvatar og skyldur sem voru til áður fyrr, og gerðu það að verkum að staðan var allt önnur en núna.
Ég beini því þessum spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvaða aðgerðapakka, hvaða hvata ætlið þið að fara í strax? Hvert er planið í þessum málum?“