Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, segir Ísland standa frammi fyrir viðkvæmri stöðu í orkuöryggi og hvetur stjórnvöld til að treysta eldsneytisbirgðir landsins. Í færslu á Facebook bendir hann á að landfræðileg lega Íslands geri kröfu um raunhæfar öryggisviðmið og að birgðir verði að standast áföll í framboði og flutningum.
„Við Íslendingar erum mjög háðir orkuöryggi og í ljósi landfræðilegrar legu okkar er mikilvægt að tryggja að eldsneytisbirgðir standist raunverulegar öryggiskröfur,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að óróleiki í alþjóðamálum síðustu daga og vikna hafi sýnt „hve hratt aðstæður geta breyst og hve viðkvæm staða okkar getur orðið þegar framboð eða flutningar raskast“.
Að hans mati undirstrikar staðan að núverandi eldsneytisbirgðir dugi aðeins í 20–50 daga nauðsyn þess að „huga betur að þessum málum“. Þá leggur hann sérstaka áherslu á að efla birgðahald á varaflugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum, þannig að þar verði til nægar birgðir til að anna millilandaflugi ef truflanir verða, líkt og komið hafi upp í nágrannalöndum á undanförnum dögum.
„Í breyttri heimsmynd er ljóst að við verðum að tryggja þjóðinni traustar og öruggar eldsneytisbirgðir,“ segir hann og telur spurninguna ekki vera hvort heldur hvenær grípa þurfi til aðgerða. „Betra er að undirbúa sig tímanlega en að bregðast seint við.“
Sigurður Ingi kallar þannig eftir markvissum skrefum til að auka viðnámsþrótt í innflutningi og birgðahaldi, með áherslu á landsbyggðina og lykilinnviði flugsamgangna. Hann segir aðgerðir óhjákvæmilegar til að tryggja stöðugleika ef framboð raskist skyndilega.
Við Íslendingar erum mjög háðir orkuöryggi og í ljósi landfræðilegrar legu okkar er mikilvægt að tryggja að…
Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Föstudagur, 26. september 2025